Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:40:26 (781)

2003-10-17 14:40:26# 130. lþ. 14.9 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:40]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil bara koma hér örstutt upp varðandi þetta mál og tjá þá skoðun mína að hér sé farið skipulega og vel af stað í þeirri hugsun að kortleggja náttúrufar, náttúrugögn og upplýsingar um náttúruna með skipulögðum hætti þannig að aðgengilegar séu.

Ég hef reyndar haft mjög mikinn áhuga á þessu sviði, bæði til lands og sjávar, þó kannski frekar til sjávar, í ein 20 ár. Mér hefur lengi fundist mikið á slíkar upplýsingar skorta, virðulegi forseti, t.d. þegar við tökum okkur það fyrir hendur að stöðva nýtingu á svæðum sjávarins þar sem við höfum með reglugerðum eða lögum lokað hafsvæðum fyrir veiðum. Eftir að stundaðar hafa verið veiðar langtímum saman er lokunin algjörlega tilviljanakennd og þekkingin sem menn vilja fá er ekki aðgengileg. Vegna hvers? Jú, það er auðvitað nákvæmlega það sem kemur fram í meginefni þessarar tillögu, það er engin skráning til um það sem fyrir er.

Við höfum upplifað það hér á fiskimiðunum við Ísland að svæðum hefur verið lokað í tvo áratugi og enginn vissi hvernig svæðið var þegar því var lokað, hvernig botngerð þess var eða hvaða breytingar höfðu orðið á svæðinu. Engin úttekt fór fram, ekki einu sinni á fyrsta ári lokunar, til að skoða hvernig svæðið leit út og undirbyggja þekkingargrunn þannig að það væri hægt að sjá hvað gerðist þá á næstu 20 árum meðan svæðið væri ekki í notkun. Það er alveg nákvæmlega sama með þetta sem hér er lagt til, það er nauðsynlegt að slíkar upplýsingar séu til og skráðar þannig að menn geti gengið að þeim og séð hvernig ástandið var t.d. á ákveðnum svæðum landsins á ákveðnum tíma. Þess vegna tel ég að hér sé verið að flytja mjög merkilegt mál og nauðsynlegt.

Ég vek athygli á þessu varðandi sjóinn vegna þess að mér finnst ömurlegt að menn skuli sitja uppi með það eftir að hafa takmarkað veiðar eða notkun á einhverjum svæðum að vita ekkert hvað gerðist. Engar grunnrannsóknir fóru fram þegar hætt var að nýta svæðin og þar af leiðandi hafa menn engan samanburð þegar þeir hugsanlega vilja fara að skoða þau. Ef menn vildu hugsanlega fara og skoða slík svæði yrðu þeir að standa fyrir mjög dýrum og umfangsmiklum rannsóknum utan við slík svæði og bera svo saman við það sem innan við er en það er hrein tilgáta því að líf á mismunandi svæðum, hvort sem er til lands eða sjávar, er bara ekkert eins á ólíkum svæðum. Það er mjög breytilegt eftir veðurfari, eftir því hvort land nýtur skjóls eða er á berangri o.s.frv., og mjög stutt er á milli svæða þar sem gróðurfar er gjörsamlega ólíkt.

Ég tel að þessi tillaga sé mjög af hinu góða og að svona skipuleg vinnubrögð sem hér eru lögð til mundu færa okkur þekkingu sem við gætum svo byggt á sjálf þegar við værum að hugsa um landnýtingu okkar eða aðra nýtingu náttúrunnar en e.t.v. hefur verið til staðar á undanförnum árum og áratugum.