Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 15:02:24 (841)

2003-10-28 15:02:24# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú fór í verra. Allt sem ég hélt að ég hefði skilið hef ég greinilega misskilið og hv. þm. er búinn að taka til baka allt sem ég hélt að væri svolítið bitastætt í málflutningi hans um það að laga stöðu barnafjölskyldna og jafnvel taka tillit til ferðakostnaðar. En það er líka merkilegt þegar hv. þm. talar um að flækja skattkerfið o.s.frv.

Sú yfirlýsing sem hann gaf fyrr í umræðunni um að hann treysti sér til að taka við rekstri fyrirtækis og sjá til þess að það mundi aldrei greiða nokkurn einasta skatt er meira en lítið merkileg. Ég meina, það var verið að lækka skatta á fyrirtæki, þeir eru komnir niður í 18% ef ég man rétt. Ég hefði gaman af að vita hvort hann hefði treyst sér til þess að reka fyrirtæki í landinu skattlaust áður en tekjuskatturinn var lækkaður eða eftir að hann var lækkaður í 18%. Það verður þá líka að spyrja hv. þingmann --- ef hann treystir sér til þess að reka fyrirtæki í landinu, öll með tapi --- hvort skattkerfi fyrirtækjanna sé þá ekki þannig í pottinn búið að það sé flókið, snúið, hægt að ganga fram hjá því og komast fram hjá öllum mögulegum hlutum til þess að fá þá niðurstöðu sem menn vilja? Væri þá ekki nær að taka á því sem snýr að atvinnulífinu í þessu tilliti ef það er rétt ályktun hjá hv. formanni efh.- og viðskn. að skattkerfisumbun fyrirtækja sé þannig að það sé hægt að reka öll með tapi, sama í hvaða umhverfi þau eru?