Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 15:04:16 (842)

2003-10-28 15:04:16# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ekki veit ég hvort hv. þm. misskilur mig af ásettu ráði eða ekki. Ég sagðist treysta mér til þess að reka hvaða fyrirtæki sem er með tapi --- ef ég þyrfti að gera það. Ég mundi ekki gera það með glöðu geði. En það er hægt að gera það og þegar skatturinn var 50% vissu menn hvernig var hérna milli jóla og nýárs. Þá voru fyrirtækin í því að fjárfesta, kaupa tölvur og annað slíkt til að koma hagnaðinum í lóg af því að ríkið borgaði í rauninni helminginn af því sem þau keyptu og gátu fært til gjalda. Þetta er engan veginn æskileg staða, langt í frá, en ég var að benda á að hagnaður fyrirtækja er hvikull skattstofn, það er svo auðvelt að láta hann hverfa. Það er hins vegar mjög erfitt að hafa hann góðan, hafa mikinn hagnað, það er snilld. Góð stjórnun og góður rekstur á fyrirtæki er snilld og það er erfitt og það erum við að verðlauna með því að hafa skattinn ekki of háan á þessi fyrirtæki þannig að það sé mikill hvati fyrir stjórnendur fyrirtækja að reka þau með hagnaði. Reyndin er líka sú eftir að skatturinn var lækkaður að hagnaður fyrirtækja hefur blómstrað sem aldrei fyrr, þau borga mjög mikla skatta í ríkissjóð og geta borgað há laun því að fyrirtæki sem rekin eru með tapi borga ekki mikil laun. Það er alveg á hreinu. Það ætti hv. þm. að þekkja úr kjördæmi sínu. Fyrirtæki sem eru með myljandi hagnað aftur á móti borga góð laun. Það er þarna sem við verðum að gæta að. Það er ekkert jafnræði milli hagnaðar fyrirtækja og launa launþega. Þetta er allt annar skattstofn eins og ég benti á. Annar skattstofninn er tregur vegna þess að menn verða að vinna og þeir geta ekki hætt að vinna þó að skatturinn sé hækkaður eilítið. En hagnaði fyrirtækja er mjög auðvelt að breyta og að sama skapi er mjög erfitt að ná upp góðum hagnaði.