Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 15:16:09 (845)

2003-10-28 15:16:09# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Frú forseti. Það eru nokkrir punktar í þessu sem vekja sérstaka athygli. ,,Við skulum ræða saman um skattamál í lok kjörtímabils.`` Það eru skilaboð ríkisstjórnarinnar. ,,Við skulum spjalla saman þarna á kosningavetrinum og sjá hver staðan er.`` Nei, frú forseti. Svona verður það ekki einfalt. Menn búa sér ekki til fjarvistarsönnun frá skattaumræðunni næstu þrjú árin. Það skal hv. þm. vita. Þannig verður það ekki. Það verður kallað eftir því að tímasetningarnar komi hér með og kurt og pí á þessu hausti eins og lofað var. Það verður ekki hægt að skauta svona létt fram hjá loforði fyrir kosningar. Það skal hv. þm. vita alveg upp á hár.

Í öðru lagi, frú forseti: Hv. þm. er að segja okkur að einstaklingar í þessu landi, launamenn, séu ekki læsir og hafi ekki vit á því að kynna sér þá möguleika sem skattkerfið bjóði upp á, það geti hins vegar hinir ríku, þeir séu sérfræðingar í því. Auðvitað er þetta ekki svona. Hvað eru þeir margir, frú forseti, einstaklingarnir sem hafa breytt sér úr launamanni í einkahlutafélag á síðustu missirum og árum? Einhvers staðar sá ég töluna 15 eða 20 þús. sem með þeirri einu aðgerð fara úr því að greiða skatt upp á 39% í að greiða fjármagnstekjuskatt upp á 10%. Er þetta hið einfalda kerfi sem hv. þm. er að hæla sér af? Af hverju er hann ekki búinn að breyta þessu þá og færa fjármagnstekjuskattinn til jafns við launamannaskattinn, tekjuskatt á launafólk? Af hverju hefur hann ekki frumkvæði hér að því að einfalda þetta götótta kerfi? Hentar bara núna að hafa áhyggjur af því að verið er að gata kerfið af því að almennir launamenn eiga að fá að njóta? Það skyldi þó ekki vera, frú forseti?