Vextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 16:50:00 (865)

2003-10-28 16:50:00# 130. lþ. 15.12 fundur 22. mál: #A vextir og verðtrygging# (verðtryggð útlán) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[16:50]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við hlýddum á framsöguræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar um þetta frv. sem felst í því að ekki megi hækka vexti á verðtryggðum lánum, hins vegar megi lækka þá, þ.e. einhliða af hendi þess sem hefur lánað peningana.

Það var mjög athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. hafandi í huga hver er lánveitandi á Íslandi svona almennt séð. Lífeyrissjóðirnir eiga um 700 milljarða og eru stærstu lánveitendur á Íslandi, bæði beint til sjóðfélaga, en sérstaklega í gegnum Íbúðalánasjóð með því að kaupa upp húsbréf sem hann gefur út og veitir ríkisábyrgð á. Þeir eru þá þessi lánveitandi sem bæði þarf að hafa belti og axlabönd, þ.e. lífeyrissjóðirnir.

Nú er það svo að fjármagn lífeyrissjóðanna er notað til að greiða lífeyri og þar af leiðandi er tilgangurinn alls ekki slæmur. Verðtryggingin er jú ein aðalforsenda fyrir verðtryggðum lífeyri, frú forseti. Mér finnst undarlegt þegar menn vilja afleggja verðtrygginguna eins og kemur fram síðar á dagskránni og við munum ræða seinna í dag.

Hv. þm. segir að fjármagnseigendur vilji bæði hafa belti og axlabönd og það sé ekki jafnvægi á lánamarkaðinum og lántakandinn sé alltaf hinn veikari. Það hefur ekki verið undanfarið. Þökk sé inngripum bandarískra auðmanna á húsbréfamarkaðinn á Íslandi, þá lækkuðu vextir á húsbréfamarkaðnum það mikið að þau fóru í yfirverð. Hvað gerði hinn skynsami lántakandi þá? Hann tók ný húsbréf og greiddi upp þau gömlu. Þetta hefur gerst í mjög miklum mæli, þ.e. menn eru að lækka hjá sér vaxtakostnaðinn með því að taka ný húsbréf í sambandi við íbúðasölur, greiða upp eldri húsbréfin sem eru með hærri vöxtum eða voru seld með hærri afföllum og nýta sér þá lækkun á vöxtum sem bandarískir auðmenn hafa fært íslensku launafólki. Mjög merkileg niðurstaða og skemmtileg, hafandi í huga orðtak margra vinstri manna varðandi þessi mál.

Í andsvari hv. þm. Helga Hjörvars áðan kom fram að sú kenning eða þær rannsóknir sem sýna að verðtrygging sé ætíð ódýrari fyrir lántakendur en óverðtryggð lán væri áróður. Þetta var tiltölulega auðvelt að reikna út þegar Seðlabankinn hafði þetta á sinni könnu, en síðustu árin er það vissulega erfiðara. En það segir sig sjálft að ef menn eiga lánsfé, eiga fé til að lána út, segjum að það sé lífeyrissjóður, og fá verðtryggingu á féð, þá þurfa menn ekki að vera eins áhyggjufullir yfir hugsanlegum verðbólguskotum og geta þar af leiðandi sætt sig við lægri vexti en ella. Áhættan minnkar. Hún minnkar líka hjá þeim sem tekur lánið, vegna þess að sem betur fer hafa laun og önnur kjör hækkað í takt við verðbólgu alla vega yfir lengri tíma. Það gerðist reyndar þegar Sigtúnshópurinn var stofnaður á sínum tíma að launin lækkuðu miðað við verðlag. Skuldirnar jukust vegna verðbólgu en verð íbúða stóð í stað. Það var verðfall á eignum miðað við verðlag. Það voru vandræði Sigtúnshópsins.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, en í sjálfu sér er það ekki röng aðferðafræði að segja að ef lánað er út óverðtryggt þá skuli vera heimilt að hafa breytilega vexti, en ef lánað er út verðtryggt þá dugi verðtrygging til þess að taka á áhættu lánveitandans. Því er til að svara að það eru líka í gangi markaðsvextir og ég vil ekki ýta undir þá forsjárhyggju sem felst í því að taka fram fyrir hendur á fólki eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, að það geti ekki lengur samið frjálst nema til lækkunar. Sú hugsun byggir að sjálfsögðu á því að það sé nokkurn veginn frjáls markaður með fjármagn eins og hefur myndast á síðustu árum. Þá ættu menn, ef vextirnir yrðu hækkaðir eða lánsfjáreigandinn hækkaði vextina einhliða, að geta sagt upp láninu. Það eru yfirleitt ákvæði um það í flestum skuldabréfum.

Þannig að ég skil anda frumvarpsins, en hef dálitlar áhyggjur af þeirri forsjárhyggju sem þarna er í gangi. Ég reikna með að þessu frv. verði að lokinni umræðu vísað til efh.- og viðskn. og þar munum við ræða það ítarlega hvort eigi að festa vexti alveg, bæði til hækkunar og lækkunar, eða eins og hér er sagt eingöngu á aðra hliðina.