Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 15:00:53 (914)

2003-10-29 15:00:53# 130. lþ. 17.11 fundur 32. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég man ekki til þess að ég hafi sagt að núverandi skattkerfi væri einfalt, alls ekki. Og mér finnst alls ekki bót að því að vera að flækja það enn frekar, mér finnst það bara allt of flókið. Eins og ég sagði áðan leiðist fólki yfirleitt að telja fram af því að það er flókið. Ég sagði ekki að þetta væri einfalt, alls ekki. Þar leggur hv. þm. mér orð í munn, og meiningu.

Svo það að þetta litla frv. breyti ekki miklu. Auðvitað ekki. Auðvitað gæti öll þjóðin lært að þeir sem ferðast og eyða meira en 10 þús. kr. á mánuði geti dregið það sem umfram er frá skatti. Auðvitað gæti öll þjóðin lært það.

Þetta minnir mig á manninn sem var að hlaða hross. Hann setti alltaf stein á stein ofan, alltaf var það pínulítill steinn, í hvert skipti var það u.þ.b. hálfs kílós steinn og munaði ekkert um það. En allt í einu kiknaði hrossið í hnjáliðunum því að hlassið var orðið svo mikið. Það var svo mikið af litlum steinum. Ef kerfið er alltaf smátt og smátt gert flóknara og flóknara verður það að lokum svo flókið að fólk botnar bara ekkert í því. Þá þarf að fara að gefa út bækur og þá fara að koma sérfræðingar sem veita þeim sem hafa efni á að kaupa bækurnar og þeim sem hafa efni á sérfræðiþekkingunni upplýsingar um allar mögulegar og ómögulegar smugur í skattkerfinu, eins og t.d. í Þýskalandi þar sem menn geta dregið batterí í heyrnartæki frá skatti í því hlutfalli sem þeir nota það í vinnunni miðað við það sem þeir eru vakandi.