Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 12:14:26 (941)

2003-10-30 12:14:26# 130. lþ. 18.2 fundur 110#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2002# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[12:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég get tekið undir margt af því sem fyrri ræðumenn hafa sagt og þarf ekki að endurtaka það en vil hugleiða nokkur mál sem tengjast þessu.

Í fyrsta lagi þetta með orðanotkun eða hugtakanotkun og önnur umboðsmannsembætti. Það hefur áður borið á góma hér. Það má segja að það sé tvíþætt mál, annars vegar hvaða nafngiftir menn gefa slíkum embættum, þessu umboðsmannsembætti Alþingis og eftir atvikum öðrum, ef þau eru til staðar. Svo er náttúrlega spurning um það hvort menn eigi að fara lengra inn á þá braut eins og gert hefur verið í löndunum sums staðar í kringum okkur, sérstaklega Svíþjóð, að stofna slík umboðsmannsembætti á helstu sviðum. Þar eru þau allmörg og eru formleg embætti umboðsmanna aldraðra, sjúklinga, fatlaðra, barna og kannski nýrra íbúa o.s.frv. Það er umhugsunarefni í sjálfu sér og getur vel komið til greina hér. Þó verður að hafa í huga að við erum þrátt fyrir allt ekki jafnstórt og fjölmennt samfélag eins og þar gerist og ekki við því að búast að okkar stjórnsýsla verði jafnumfangsmikil að þessu leyti. Að sjálfsögðu varð tilkoma umboðsmanns barna gríðarleg framför á því og ég held að það hvarfli ekki að neinum að það eigi að leggja það niður. Spurningin væri þá frekar um nafnbreytingu, án þess að ég telji að það eitt og sér valdi miklum ruglingi, að þessi tvö embætti væru áfram við lýði með þessum nöfnum. Það gæti þó vel komið til greina að koma þar breytingu á, sérstaklega ef farið yrði inn á svipaða braut á fleiri sviðum.

[12:15]

Ég gæti látið mér til hugar koma að það gæti verið mögulegt að nota þá frekar nafn eins og ,,réttargæslumaður`` í þeim tilvikum sem í hlut ættu einhvers konar fulltrúar eða réttargæslumenn hópa sem störfuðu á grundvelli sérlaga. Þróun í löggjöf gefur fullt tilefni til að skoða það. Hér hafa t.d. verið sett lög um réttindi sjúklinga, á Alþingi hefur verið sýnt réttargæslufrumvarp fatlaðra þar sem sérstök réttargæslulög yrðu sett til að tryggja stöðu þess hóps, og vel gæti komið til greina að hluti af þeirri lagasetningu væri að stofnað yrði embætti réttargæslumanns. Þá væri a.m.k. fyrir því séð að um nafnarugling yrði ekki að ræða.

Ég er hallari undir þá útfærslu og þróun frekar en að fjölga embættum umboðsmanna, að það yrði farið yfir og skilgreint á hvaða sviðum gæti verið tilefni til þess að sérstakir réttargæslumenn störfuðu sem hefðu þá sérstaklega með það að gera að tryggja réttindi ákveðinna hópa á grundvelli laga sem um þau hefðu verið sett.

Ef um væri að ræða almenna hagsmunagæslumenn er málið komið út á dálítið annað skrið og þá enn fjarlægara en ella að rétt sé að nota heitið ,,umboðsmaður``.

Það er, eins og þegar hefur komið fram hér held ég, óhætt að segja að það ríki mjög góð sátt um embætti umboðsmanns Alþingis og það hafi tekist vel til við uppbyggingu þess og sama megi segja í öllum aðalatriðum um Ríkisendurskoðun þó að það embætti af ýmsum ástæðum geti eðli málsins samkvæmt orðið umdeildara.

Umfangið í starfsemi umboðsmanns og þær tölulegu staðreyndir sem liggja fyrir í skýrslunni segja allt sem segja þarf um þörfina fyrir þetta embætti, að almenningur í landinu hefur þegar lært að nýta sér það. Það er margt áhugavert þegar maður skoðar þá tölfræði. Mér finnst t.d. að mörgu leyti ánægjulegt, eða a.m.k. athyglisvert, að sex einstaklingar undir tvítugu senda erindi til umboðsmanns Alþingis. Það má kannski segja að það séu algerlega tvær hliðar á því, það sé líka slæmt að ungt fólk telji svo á rétt sinn og hlut gengið að það sjái sig knúið til að kvarta til umboðsmanns. En það er í öllu falli jákvætt að meira að segja í þessum aldurshópi er mönnum ljós þessi möguleiki, að bent er á hann.

Ég held að líka sé ástæða til að fara rækilega yfir flokkun mála og draga af henni skynsamlega lærdóma, t.d. því sem hér hefur þegar komið fram, hversu áberandi mál á sviði fangelsismála, út af fyrir sig dómsmála, eru. Þau eru 10% allra mála, 35 skráð viðfangsefni á árinu 2002 falla undir liðinn Fangelsismál, og það er reyndar sláandi hversu langfyrirferðarmest allra ráðuneyta dóms- og kirkjumrn. er þegar kemur að flokkun eftir ráðuneytum. Á því eru að sjálfsögðu að mörgu leyti eðlilegar skýringar þar sem um réttarfars- og stjórnsýsluleg mál er að ræða.

Ég get tekið undir það sem hv. 5. þm. Reykv. n., Guðrún Ögmundsdóttir, sagði, það vekur á hinn bóginn athygli t.d. hversu fá mál á sviði félagsmála, á sviði félmrn., enda hjá umboðsmanni. Þar hefði maður þó ætlað að tilefnin gætu verið ærin.

Afgreiðslutíminn hefur lengi verið fyrirferðarmikill þegar menn hafa rætt um starfsemi embættis umboðsmanns og stór hluti af orku embættisins hefur farið í það gegnum tíðina að veita stjórnvöldum aðhald og knýja þau til þess að afgreiða mál, helst innan tilskilinna tímamarka. Þar hefur tvímælalaust orðið framför en þó eru enn því miður veruleg brögð að því að það dragist úr hömlu að svara erindum eða jafnvel að þeim sé alls ekki svarað, ekki sé virtur sá réttur manna að fá upplýsingar um það ef afgreiðsla mála þeirra tefst o.s.frv.

Framkvæmd stjórnsýslulaganna, eins og hér var minnt á af hv. þm. Bjarna Benediktssyni, er að sjálfsögðu fyrirferðarmikil. Það er eðlilegt að farið sé yfir það, m.a. vegna þess að stjórnsýslulögin eru nú tíu ára gömul, hvort þar sé breytinga þörf. Ég hef þá tilfinningu að það sé kannski meira framkvæmdinni og eftirliti og eftirfylgju sem þyrfti að beina sjónum að, heldur en að lögunum sjálfum sé í grundvallaratriðum áfátt. Ég held að þau séu í öllum aðalatriðum vönduð, voru tvímælalaust mikil framför í réttarfari okkar og stjórnsýslu allri þegar þau komu til sögunnar.

Ég vil aðeins nefna, eins og fleiri hafa reyndar gert hér, mál sem umboðsmaður tekur upp að eigin frumkvæði. Það er ánægjuefni að það eigi að efla þann þátt í starfseminni. Það er auðvitað enginn vafi á því að það er mjög þarft. Það er mjög mikilvægt að embættið geti að eigin frumkvæði tekið upp mál, og vonandi fer þeim athugunum hlutfallslega fjölgandi á næstu árum. Ég held að þar mættu gjarnan vera önnur hlutföll en nú eru þar sem sjö mál voru tekin upp að eigin frumkvæði embættisins en málafjöldinn er hátt í 300.

Viðbrögð stjórnvalda hafa líka lengi verið umræðuefni í tengslum við skýrslur umboðsmanns og alla vinnu embættisins, þ.e. viðbrögð þeirra við formlegum álitum og sérstaklega þeim álitum þar sem fram kemur að gera þurfi ráðstafanir. Hér hafa að sjálfsögðu iðulega litið dagsins ljós lagafrumvörp þegar í kjölfar skoðunar hjá embætti umboðsmanns hefur komið í ljós að t.d. reglugerðir hafa ekki haft fullnægjandi lagastoð eða annað í þeim dúr og þá er að sjálfsögðu rétt og skylt að bregðast fljótt við slíku. Auðvitað er þetta ferli hugsað þannig að það sé gagnvirkt og menn geti sem sagt þannig sameiginlega tekið á málum.

Hitt er öllu verra ef menn lofa öllu fögru en gera síðan ekkert, eins og lesa má út úr ákveðnum málsgreinum hér í skýrslunni að séu nokkur brögð að. Þá er náttúrlega embætti umboðsmanns vandi á höndum, hvort það á þá sjálft að fara að standa í eftirrekstri gagnvart því að úrbætur sem hefur verið lofað eða gefin hafa verið fyrirheit um láti síðan ekkert á sér kræla. Kannski er það þáttur sem mætti velta fyrir sér í sambandi við framtíðarframsetningu skýrslunnar að þar sé ítarlegar farið yfir það og því haldið til haga sérstaklega með yfirliti í hvaða tilvikum komið hafa viðbrögð frá stjórnvöldum þar sem gefin eru fyrirheit um breytta framkvæmd eða úrbætur sem síðan hafa látið á sér standa. Þannig væri einnig að þessu leyti hægt að nota embættið til aðhalds í stjórnsýslunni.

Fleira ætla ég ekki að segja um þetta, virðulegur forseti. Ég sem sagt þakka fyrir þessa skýrslu og þakka fyrir almennt vönduð störf embættis umboðsmanns Alþingis.