Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 14:14:15 (955)

2003-10-30 14:14:15# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., GÖg
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Það er afar ánægjulegt að stíga í pontu þingsins og vera einn af flutningsmönnum frv. sem hér er um rætt, en það er hið svokallaða vændisfrumvarp sem svo mikið hefur verið rætt í langan tíma. Öll kvennasamtök og allir hafa ályktað og styðja þetta mikla góða framtak sem hér er verið að mæla fyrir.

Ég vil þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir mjög góða framsögu í málinu. Mitt hlutverk hér sem meðflytjanda er því fyrst og fremst aðeins að fylgja í hennar spor og sýna að við styðjum af heilum hug málið sem við nú mælum fyrir.

[14:15]

Með frv. þessu er verið að breyta ýmsu í hegningarlögunum. Til dæmis er tekið á orðinu lauslæti. Það hefði alveg eins getað staðið í textanum: þeir sem væru lausgirtir. Þetta er auðvitað gamalt orðatiltæki og ágætt að afmá það út úr lagatexta. Enda skilur enginn í dag hvað orðið lauslæti þýðir. Það hefur allt aðra merkingu en það hafði hér á árum áður.

En málið er í rauninni mjög einfalt fyrir mér og sennilega flestöllum öðrum. Í fyrsta lagi getur það ekki verið löglegt eða siðlegt að kaupa aðra manneskju til að þjóna kynlífsórum sínum. Mjög einfalt. Það á ekki að vera löglegt og það er ekki siðlegt.

Í öðru lagi. Það á ekki að vera þannig að hegna eigi manneskju sem selur sig í neyð. Það er líka mjög einfalt. Þetta eru mjög skýr og einföld fyrirmæli sem við erum að tala um og einfaldir hlutir. Það er auðvitað þingsins að setja þessi siðferðislegu mörk og axla siðferðislega ábyrgð. Við viljum stuðla að því.

Mjög gaman er að velta því fyrir sér af því ég hef verið í kvennabaráttu frá ómunatíð, að allt í einu verður hið gamla slagorð ,,manneskja, ekki markaðsvara`` mjög nálægt í dag. Það er mjög ánægjulegt.

Það sem gerist hér er að allar þingkonur allra flokka utan Sjálfstfl. eru með á þessu frv. Ég hef ákveðið að strá ekki meira salti í sárin hjá þeim konum, þótt þær konur séu ekki endilega á þingi því við vitum vel að innan Sjálfstfl. er mjög mikil óánægja með að sá flokkur skuli ekki vera með á þessu frv.

Einnig var óánægja með að karlmenn fengju ekki að vera með á frv. Þetta varð hins vegar lending kvennanna sem að þessu máli standa. Hins vegar vitum við vel af góðum stuðningi margra karlmanna hér inni og er það vel. Vona ég svo sannarlega að þeir muni líka taka til máls í þessari umræðu.

Ég get státað af því að hafa hafið umræðuna um mansal og vændi og beðið um skýrslur þar að lútandi, enda málið staðið mér nálægt þar sem ég hef unnið við slík mál, komið nálægt þeim í mörg ár og kannski veit ég meira en góðu hófi gegnir um þennan heim. En það hefur verið ágætt veganesti inn í umræðuna.

Einnig er gaman að geta þess að ég veit að mjög mikil ánægja er meðal Norðurlandaþjóðanna að við skulum vera komin svo langt með þetta mál að það skuli vera komið til þingsins. Við erum vissulega að feta í fótspor Svíanna. Ef við gætum orðið næst, þá er þar mjög mikill sigur unninn. En einnig hafa jafnaðarmenn og vinstri menn á Norðurlöndunum og í Norðurlandaráði ályktað í þessa veru. Það ætti því ekki að verða mjög erfiður eftirleikur ef þetta tækist núna. Við eygjum enn þá þá von og við skulum ekki missa hana.

Ég í mínu fagi veit auðvitað að hluti af vændi fer fram neðan jarðar, hefur gert það t.d. í Svíþjóð. Fínt, segjum við þá. En þá þarf félagslega kerfið að vera viðbúið að bregðast við því og taka á þeim vandamálum sem þar koma upp ef vitað er um slíkt. Hér heima hefur þetta alla tíð verið neðan jarðar. Það er neðan jarðar. Það er ekki eins og við séum að tala um að setja eitthvað niður. Það er allt niðri.

Ég hóf þá umræðu og bað um samanburð á lagaumhverfinu og ég var ein þeirra sem byrjuðu að tala um drengjavændið. Ég hef vitað af drengjavændi í 15--20 ár hér heima og öll mín ár í Danmörku. Það var alveg vitað hvar karlmenn gætu keypt drengi, hvar það vændi fór fram. Þegar ég nefndi það þá hélt fólk að ég væri farin að rugla. En auðvitað er ekki svo.

Ég vil benda þingheimi á afar gagnmerka skýrslu um vændi meðal ungs fólks á Íslandi og félagslegt umhverfi þess og flestallir hafa heyrt um þá skýrslu. Hún hefur verið mikið í fjölmiðlum og í rauninni er hún framhald af þeim tveimur skýrslum sem þegar hafa komið fram. Skýrslan sýnir að þetta eru ekki bara stelpur. Þetta eru ekki bara dætur og mæður. Þetta eru synir og feður sem eru líka fórnarlömb þessa. Því er afar mikilvægt og ekki væri úr vegi að hv. allshn. fengi t.d. höfund þeirrar skýrslu, Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur, til fundar við nefndina og skoða hvaða hugmyndir og tillögur hún hefur fram að færa varðandi löggjöfina og hvernig er hægt að bregðast við.

Það er afar mikilvægt og verður alltaf að hugsa það í þeirri samfellu, og ég hef reynt að gera það, að lykilatriði er að koma upp neyðarlínu. Það var m.a. ein af spurningunum sem ég spurði þáv. hæstv. dómsmrh., Sólveigu Pétursdóttur, margsinnis að. Neyðarlína er ein af þeim framhaldsaðgerðum sem þarf. Við þurfum slíkt skjól. Stígamót hafa unnið gríðarlega góða vinnu. Við þurfum líka að geta tekið á móti erlendum konum sem hingað koma í mansali t.d. Mér finnst þess vegna að félagsþjónustan, Kvennasamtökin, lögreglan, Rauði krossinn og aðrir aðilar þurfi núna að setjast niður og koma með einhverja góða línu um það hvernig við eigum að mæta þessu. Og ég tala nú ekki um út frá þeirri skýrslu og þeim raunveruleika sem er kynntur í henni og liggur fyrir núna. Í rauninni getum við sagt sem svo að þessi breyting í frv. um almenn hegningarlög komi algjörlega á réttum tíma í tengslum við þann raunveruleika sem verið er að afhjúpa á Íslandi. Það gæti í rauninni ekki verið betra.

Við vitum líka og eigum ekki að hiksta við að viðurkenna það hverjir standa á bak við vændi t.d. í Danmörku. Við vitum vel að það er stór hluti t.d. af Hells Angels, Banditos og öllum þessum gengjum sem standa á bak við mikla glæpa\-starfsemi, í dópi, mansali og vændi. Við megum heldur ekki vera þau börn að halda að það sé ekki hér. Auðvitað er það hér líka eins og allt annað. Það er líka falið. Við eigum að byrja að ræða við lögregluna um það sem þeir vita akkúrat um þau mál. Og þeir vita talsvert. Við hér, löggjafinn á að vera það framsýnn að hann á að bregðast við. Það er ekki spurning.

En það er afar ánægjulegt að þetta frv. skuli komið fram og með flestöllum konum þingsins. Ég á líka alveg eins von á því að frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Það fer auðvitað til umsagnar. Verið er að taka stórt skref í að axla ábyrgð og að við sendum þau siðferðislegu skilaboð að við getum ekki keypt aðrar manneskjur okkur til dundurs og kynlífsþarfa. Hvorki viljum við láta kaupa dætur né mæður okkar. Gleymum því ekki. Stundum hefur verið að því hlegið, en harðfullorðnar konur eru líka í vændi, sjötíu og tveggja ára er sú elsta sem ég hef rætt við.

Við eigum því að gera allt til þess að styðja þá hópa sem eru í vændi. Reyna að gera allt til þess í gegnum félagsþjónustu, stuðningshópa, neyðarlínur og í gegnum löggjöfina eigum við að taka af þeim saknæmið. Við erum eitt Norðurlandanna sem er með þá löggjöf að saknæmt sé að selja sig. Nú erum við að færa þetta í takt við aðrar Norðurlandaþjóðir og er það vel. Höfum í huga að við viljum ekki láta kaupa dætur okkar og syni. Ég vona svo sannarlega að frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Ef ekki, þá endurtökum við leikinn að ári.