Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 14:40:48 (959)

2003-10-30 14:40:48# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[14:40]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var einmitt, eins og fram kom hjá hv. þm. Jónínu Bjartmarz, mikið rætt á þinginu og það kom líka fram að menn vilja skoða þetta, menn vilja ekki flýta sér of mikið í löggjöfinni. Þetta er spurning um það þegar sett eru lög með refsiákvæðum, að þá þarf náttúrlega að fara eftir þeim lögum. Og menn vilja svolítið horfa til þess hvernig þessu máli vegnar í Svíþjóð. Norðmenn eru ekki tilbúnir að fara þessa leið og aðrir.

En aðeins bara út af myndinni aftur, Lilya 4-ever, þá ráðlegg ég öllum sem ekki hafa séð þá mynd að sjá hana. Ég varð sjálf mjög snortin að sjá þessa mynd og var nánast með tárin í augunum þegar ég horfði á hana. En ég held að við verðum líka að uppræta vandann miklu fyrr, áður en hann er kominn á þetta stig. Við þurfum að uppræta fátæktarvandann í Eystrasaltslöndunum. Ég var í Rússlandi í Viborg í vor þar sem ég kom á götubarnaheimili. Þar voru götubörn, börn sem nágrannar, Finnar, koma og misnota. Það er miklu fyrr, á grunnstiginu, sem við verðum að vinna þessi mál. Við þurfum líka meiri uppfræðslu, meiri varnir í heilbrigðismálum og það er svo margt sem við getum gert.