Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 15:27:07 (965)

2003-10-30 15:27:07# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[15:27]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri í sjálfu sér engan stóran ágreining um það að dagskránni sé breytt en ég hefði gjarnan viljað hafa betri undirbúning fyrir þetta mál. Ég las skýrslu um vændi og hefði sem sagt viljað, eins og hv. þm. þekkir til minna vinnubragða, hafa betri tíma til þess að undirbúa mig. Hins vegar segi ég það ekki að ég þekki ekki málið og ég ætla ekki að taka það til mín að ég tali af fullkominni vanþekkingu um málið eins og hv. þm. gefur í skyn.

En varðandi dagskrána skulum við bara láta það liggja milli hluta. Ég get í sjálfu mér sett mig í þau spor hv. þingmanns að hún hafi stundum þurft að sæta þessu sjálf. Ég vildi benda á það að þetta kom mér á óvart og ætla ekki að hafa fleiri orð um það.

Varðandi aðkomu þingkvenna í Sjálfstfl. stendur það sem ég sagði áðan, ég var ekki þátttakandi í þessu sjónarspili því að ég er ekki fastur þingmaður á þingi. Eins og þetta leit hins vegar út fyrir mér þar sem ég var úti í bæ og ekki að fylgjast með frá degi til dags fannst mér það vera meginatriðið í kynningu á frv., því miður því að umræðan er góð, að sjálfstæðiskonurnar væru slíkir aumingjar að þær gætu ekki einu sinni tekið ákvarðanir sjálfstætt. Það svíður mér. Ég gat ekki annað en komið því á framfæri.