Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:43:32 (1081)

2003-11-03 18:43:32# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:43]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér kom fram í lok andsvars hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um mikilvægi þess að Alþingi fengi að fylgjast vel með þessu ferli og því sem fram undan er og gæti sett mark sitt og sjónarmið inn í þá umræðu.

Mér fannst reyndar í upphafi málsins hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon detta í sömu gryfju og hæstv. forsrh., þ.e. að öfundast út í þá athygli sem umræða og ræða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar fékk á landsfundi Samf. Meðal annars leyfði hæstv. forsrh. sér að tala um að þetta væri 300 manna þing eða svo þegar það er nær því að vera 1.000 manns sem á hann mættu. En látum það liggja á milli hluta.

Hv. þm. talaði í upphafi máls síns um að það væri mikilvægt að annað slagið fjölluðu menn um hugmyndafræði og hinar breiðu línur í þessum málum og mig langaði þá að spyrja hann í ljósi þess --- það breytir þá kannski ekki hvort um er að ræða skipan í heilbrigðismálum, fjarskiptamálum eða öðru slíku en á báðum þessum sviðum er um að ræða mjög blandaðan rekstur, þ.e. það eru einkafyrirtæki á þessum markaði ef markað skyldi kalla, bæði á fjarskiptamarkaði og heilbrigðissviði: Leggur hv. þm. þá með þeim orðum og sjónarmiðum sem hann setur fram til að þessi fyrirtæki verði þjóðnýtt, þ.e. að ríkið leysi þau til sín? Eða er hv. þm. sáttur við það fyrirkomulag sem nú er á þessu sviði, þ.e. ef um blandaðan rekstur er að ræða? Ég vildi fá að heyra sjónarmið hv. þingmanns í þessum efnum vegna þess að hann hefur talað mjög einarðlega fyrir ríkisrekstri á þessum sviðum. Ég vildi gjarnan fá það fram hvort hann hygðist þá grípa til sérstakra aðgerða vegna þeirrar stöðu, virðulegi forseti, sem uppi er á báðum þessum sviðum.