Endurskoðun stjórnarskrárinnar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 13:36:22 (1203)

2003-11-05 13:36:22# 130. lþ. 21.1 fundur 67. mál: #A endurskoðun stjórnarskrárinnar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[13:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. gat um bar hann fram svipaða fyrirspurn fyrir nokkru. Þá svaraði ég því til að ég væri, með ákveðnum formerkjum þó, reiðubúinn að beita mér fyrir því að slík endurskoðun yrði hafin enda yrði um það sæmileg sátt í þinginu. Þessi formerki vísuðu til þess að fyrri tilraunir til endurskoðunar á stjórnarskránni í heild sinni hefðu ekki borið árangur. Á hinn bóginn hefðu afmarkaðir hlutar stjórnarskrárinnar verið endurskoðaðir og þeim breytt á tiltölulega stuttum tíma.

Af fyrra endurskoðunarstarfi taldi ég mig geta dregið tvenns konar lærdóm. Annars vegar væri óráðlegt að ætla sér um of í slíku starfi. Hefðu menn allt undir í slíkri endurskoðun væri hætt við að hún yrði ekki nógu markviss. Kröftum yrði dreift of víða. Það tæki síðast en ekki síst allt of langan tíma og næði ekki fram að ganga. Á hinn bóginn væri ákveðin hætta fólgin í að menn ætluðu sér of lítinn tíma í endurskoðun á stjórnarskrárákvæðum eins og stundum hefur borið við í seinni tíð.

Stjórnarskráin á að vera kjölfesta í stjórnskipun okkar. Hún er í eðli sínu margslungin. Þess vegna þarf að hyggja vel að öllum áformum um breytingar og gaumgæfa þær frá öllum hliðum. Af fyrri reynslu okkar tel ég því óhætt að draga þá ályktun að farsælast sé að endurskoða stjórnarskrána í afmörkuðum áföngum, hvort sem hún er miðuð við tiltekin atriði eða kafla, og ætla sér til þess hæfilegan tíma. Stjórnarfarslegar aðstæður eru allt aðrar nú en áður. Örar breytingar og framfarir í þjóðlífinu virðast gefa tilefni til að farið verði yfir hvernig eldri ákvæði stjórnarskrárinnar hafa staðist tímans tönn og hvort ástæða sé til að gera þar á breytingar. Á þessum grundvelli get ég því enn tekið undir fyrri lið fyrirspurnarinnar og lýsi mig reiðubúinn til samstarf við formenn annarra stjórnmálaflokka um að hefja endurskoðun afmarkaðra þátta í stjórnarskránni. Ég legg áherslu á að um þetta verður að ríkja góð sátt meðal forustumanna flokkanna ef þetta á að geta gengið fram.

Varðandi síðari hluta spurningarinnar, um hvaða tilefni séu að mati ráðherra brýnust við endurskoðun stjórnarskrárinnar vil ég segja þetta: Þegar ég svaraði síðast sams konar fyrirspurn eins og ég nefndi áðan þá rifjaði ég upp að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar hefðu tiltölulega nýlega verið endurskoðuð í því skyni að taka þar upp öll réttindi sem alþjóðlegar skuldbindingar gera ráð fyrir. Almennt væri því ekki ástæða til að ætla að brýn þörf væri á að endurskoða þau ákvæði fyrr en fengist hefði af þeim meiri og ríkari reynsla en þegar væri fengin. Líklega væri fremur ástæða til að hrófla ekki við þeim meðan dómstólar fóta sig á þýðingu þeirra og ná þar vonandi fótfestu eftir því sem tímar líða fram. Ég hygg að endurskoðun stjórnarskrárinnar ætti miklu fremur að snúa inn á við og í raun ætti að taka upp þráðinn þar sem við hann var skilið um miðja síðustu öld.

Þannig virðist mega að ósekju færa ýmis atriði í I. og II. kafla stjórnarskrárinnar til nútímalegs horfs. Þar er fjallað um stjórnarformið og grundvallarreglur stjórnskipunarinnar, um forsetakjör, lögkjör forseta og störf hans og ráðherra. Almennt mætti í þessum köflum draga upp skýrari mynd af ríkjandi stjórnarfari og færa ákvæði um það nær því sem það er í raun. Eins og menn þekkja eru mörg þessara ákvæða orðuð þannig að þau draga ekki rétta mynd af raunveruleikanum nema þau séu lesin í samhengi hvert við annað og skýrð í ljósi ýmissa venjuhelgaðra reglna sem hafa í raun öðlast stjórnarskrárvarða stöðu, svo sem þingræðisreglunnar sem þó er ekki nefnd. Þetta á til að mynda við um valdheimildir forseta og ráðherra.

Bent hefur verið á að ýmis þau störf sem forseta eru falin samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar hafa komið til og þótt eðlilegur þáttur í störfum hans meðan þingið átti að kjósa í embættið eins og til stóð. Þau voru hins vegar ekki endurskoðuð þegar þjóðkjör hans var ákveðið. Almennt gerir stjórnskipun okkar ráð fyrir að valdheimildir forseta séu bundnar atbeina ráðherra. Stjórnarskráin getur hins vegar í engu einu starfa hans sem stjórnskipunin gerir ráð fyrir að forseti sinni án atbeina ráðherra, sem sé um hlutverk hans við stjórnarmyndanir. Ég sé fyrir mér að ákvæði um það gæti átt heima í stjórnarskrá. Það mundi tengist því að þingræðisreglan yrði fest í sessi, t.d. gagnvart skilyrðum um það í hvaða tilvikum sé hægt að mynda utanþingsstjórn, boða til kosninga undir ákveðnum kringumstæðum og þar fram eftir götunum.

Þá gerir stjórnskipun okkar ráð fyrir að ráðherrar fari með æðsta framkvæmdarvald hver á sínu sviði. Til greina kæmi að árétta þá skipun berum orðum, þar á meðal að ráðherra fari með völd forseta og tengja það ábyrgð þeirra í stjórnarframkvæmdum. Með því móti yrði augljóst að ábyrgðin hvílir á þeim nema hún sé sérstaklega frá þeim tekin með lögum.

Stjórnarskráin er enn fremur fáorð um hlutverk ríkisstjórnarinnar. Æskilegt væri að af stjórnarskrá mætti ráða hvert hlutverk ríkisstjórnarfunda eigi að vera. Eiga þeir eingöngu að vera pólitískur samráðsvettvangur eða má jafnframt fela þeim stjórnsýslu? Ætti að styrkja agavald ríkisstjórnar og ráðherrafunda yfir einstökum athöfnum ráðherra, til að mynda þannig að þeir fari ekki fram með önnur þingmál en þau sem ríkisstjórnin stendur öll að, staðfesting milliríkjasamninga sé undirorpin samþykki ríkisstjórnar o.s.frv.?

Ég ætlaði að hafa þetta heldur lengra en nú er ljósið farið að blikka á mig. Saman dregið sé ég það þannig fyrir mér að endurskoðun stjórnarskrárinnar gæti bæði falist í athugun á gildandi ákvæðum sem og því hvort ástæða sé til að taka í hana sérstök nýmæli. Með nýmælum í stjórnarskrá á ég við hvort ástæða sé til að festa í sessi ýmsar venjuhelgaðar reglur sem ætla má að hafi nú þegar öðlast stjórnarskrárvarða stöðu, eins og þingræðisregluna, sem og aðrar reglur sem ekki hafa slíka stöðu en einhugur ríkir engu að síður um, svo sem að auðlindir okkar til lands og sjávar séu sameign þjóðarinnar, svo að eitthvað sé nefnt.