Lágflug og æfingar orrustuflugvéla Bandaríkjahers

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:09:00 (1214)

2003-11-05 14:09:00# 130. lþ. 21.3 fundur 64. mál: #A lágflug og æfingar orrustuflugvéla Bandaríkjahers# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég gekk nú út frá því að fyrirspurnin væri fram borin á þeirri forsendu að herþoturnar yrðu hér áfram, enda hefði fyrirspurnin verið óþörf ef gert hefði verið ráð fyrir því að þær færu héðan. En það liggur alveg ljóst fyrir hver er vilji ríkisstjórnar Íslands í því sambandi og hefur komið skýrt fram og ég ætla ekki að fara að endurtaka það hér.

Hitt er svo annað mál að það er vitað að það hafa orðið mistök í þessu sambandi. Það á m.a. við í því tilviki sem hv. þm. nefndi hér að því er varðaði atvikið í Biskupstungum þar sem þoturnar flugu yfir Flúðir. Þar áttu sér stað mistök þar sem Flugmálastjórn gaf þeim heimild til að stækka æfingasvæðið en flugmenn varnarliðsins skildu það sem svo að Flugmálastjórn hefði veitt þeim heimild til að æfa á stærra svæði og flugu þar af leiðandi yfir þennan stað, þ.e. Flúðir. Slík mistök geta að sjálfsögðu átt sér stað.

Að því er varðar að rjúfa hljóðmúrinn, þá má samt ekki rugla saman því atviki og almennum hávaða frá þotunum. Það er mikill hávaði frá þeim, það liggur alveg ljóst fyrir. Og ýmsir halda að það sé verið að rjúfa hljóðmúrinn en það þarf alls ekki að vera, vegna þess að hávaðinn er því miður verulegur frá þessum þotum. Það liggur alveg ljóst fyrir eins og hv. þm. sagði.