Úrbætur í fjarskiptamálum í Norður-Þingeyjarsýslu

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:15:16 (1238)

2003-11-05 15:15:16# 130. lþ. 21.9 fundur 69. mál: #A úrbætur í fjarskiptamálum í Norður-Þingeyjarsýslu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Því miður neyðist ég til að taka þetta mál upp einu sinni enn hér í fyrirspurnatíma eða umræðum á Alþingi af þeirri einföldu ástæðu að þær úrbætur sem maður átti satt best að segja von á að nú væru um garð gengnar í fjarskiptamálum á norðausturhorninu, eru það ekki. Og ég hafði ástæðu til að ætla miðað við fyrri orðaskipti okkar, mín og hæstv. ráðherra, og af ýmsum öðrum ástæðum að nú yrði þetta um garð gengið á þessu ári eða þessu sumri sem er heppilegasti tíminn til framkvæmda í þessum efnum. Þetta snýst fyrst og fremst um það að bæta úr ófullnægjandi ástandi þessara mála á þéttbýlisstöðunum Raufarhöfn og Kópaskeri og næsta nágrenni og er fjárfesting upp á 30--45 millj. kr. hvað varðar a.m.k. svona brýnustu úrbætur. Ástandið er þannig í dag að Raufarhöfn hefur fjarskiptasamband með örbylgju frá Viðarfjalli. Það er ótryggt og ófullnægjandi tenging og háir uppbyggingu t.d. á sviði fjarvinnslu eða annarrar slíkrar starfsemi á staðnum. Kópasker hefur tvenns konar sambönd, það eru gamlir koparþræðir frá Lundi í Öxarfirði annars vegar og veikt örbylgjusamband yfir á Auðbjargarstaðabrekkubrún handan Öxarfjarðar hins vegar. Þessi sambönd eru fulllestuð og það stendur mönnum fyrir þrifum að ekki hefur verið ráðist í úrbætur þarna.

Tillögur liggja fyrir og hafa lengi gert um nauðsynlegar lagfæringar, svo sem eins og lagningu ljósleiðara frá Lundi út á Kópasker og mögulega áfram upp á Snartarstaðanúp, hvaðan yrði þá bætt við örbylgusambandi yfir til Raufarhafnar sem þannig fengi tvöfalda tengingu úr báðum áttum, aukið öryggi og meiri flutningsgetu. Þessi lausn væri fullnægjandi fyrir báða staðina en einnig kæmi auðvitað til greina að tengja Raufarhöfn sérstaklega við ljósleiðaranetið með lagningu ljósleiðara úr vestanverðum Þistilfirði og þangað.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. samgrh.:

1. Hverju sætir að enn hefur ekki verið ráðist í úrbætur í fjarskiptamálum í Norður-Þingeyjarsýslu, einkum hvað varðar tengingar Raufarhafnar og Kópaskers við ljósleiðarann?

2. Hvað kosta nauðsynlegar úrbætur til þess að fjarskipta- og gagnaflutningsmöguleikar komist í forsvaranlegt horf, viðunandi öryggi verði tryggt og unnt verði að anna eftirspurn á viðkomandi svæði?

3. Hefur ráðherra beitt sér í málinu gagnvart Landssímanum?

4. Hvenær er þess að vænta að úrlausn fáist?

5. Er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir fjárveitingum á fjárlögum til að styrkja grunnfjarskiptanetið á strjálbýlum svæðum ef sýnt þykir að fjarskiptafyrirtæki láti úrbætur þar sitja á hakanum?

Það vekur undrun að hið öfluga fyrirtæki Landssíminn með prýðilega afkomu, í eigu ríkisins, skuli ekki sjá sér fært að bæta þjónustuna við íbúa þessara svæða þó að auðvitað sé brýn þörf fyrir fjárfestingar og úrbætur á mörgum öðrum sviðum, svo sem eins og í því að þétta GSM-netið.