Úrbætur í fjarskiptamálum í Norður-Þingeyjarsýslu

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:18:33 (1239)

2003-11-05 15:18:33# 130. lþ. 21.9 fundur 69. mál: #A úrbætur í fjarskiptamálum í Norður-Þingeyjarsýslu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi spyr hv. þm.: ,,Hverju sætir að enn hefur ekki verið ráðist í úrbætur í fjarskiptamálum í Norður-Þingeyjarsýslu, einkum hvað varðar tengingar Raufarhafnar og Kópaskers við ljósleiðarann?``

Eins og í öllum fyrirtækjarekstri verður að velja og hafna, forgangsraða í fjárfestingum símafyrirtækja sem starfa á markaði. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að það sé skýringin á því að umræddar úrbætur hafa ekki náð fram að ganga. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins er afkastageta fjarskiptakerfisins viðunandi miðað við notkun á umræddu svæði, þó öryggið sé mest á Þórshöfn þar sem ljósleiðarinn liggur. Ekki eru fyrirhugaðar neinar framkvæmdir af hálfu Landssíma Íslands við uppbyggingu sambanda við þéttbýlisstaði á Austurlandi á þessu ári samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu og ekki liggja fyrir endanlegar áætlanir næsta árs, en óvíst er hvenær farið verður í framkvæmdir.

Til er áætlun um lagningu ljósleiðara frá Lundi í Öxarfirði til Kópaskers, eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda, og að örbylgjusamband verði sett upp milli Kópaskers og Raufarhafnar, en þaðan er örbylgjusamband á Viðarfjalli við ljósleiðarahringinn. Núverandi samband við Kópasker er annars vegar um örbylgju frá Tjörnesi og hins vegar um koparstreng frá Lundi og getur hvort samband um sig flutt tveggja megabita sambönd. Raufarhöfn er hins vegar tengd með 34 megabita sambandi um Viðarfjall.

Í annan stað er spurt: ,,Hvað kosta nauðsynlegar úrbætur til þess að fjarskipta- og gagnaflutningsmöguleikar komist í forsvaranlegt horf,`` o.s.frv.?

Í spurningunni felst fullyrðing sem ekki er hægt að staðfesta. Ekki liggur fyrir að kerfið anni ekki eftirspurn eða öryggi sé óviðunandi. Kostnaðurinn við þessa ljósleiðaraframkvæmd er áætlaður um 50 millj. kr.

Í þriðja lagi er spurt hvort ráðherra hafi beitt sér gagnvart Landssímanum.

Stefna ráðuneytisins er að gera skýrar kröfur um að símafyrirtæki anni sem best eftirspurn og að alþjónustuskyldur séu virtar. Heimildir ráðherra til að beita sér takmarkast af því annars vegar að Landssíminn er hlutafélag á samkeppnismarkaði og með málefni fyrirtækisins fer stjórn sem hefur lögmætt hlutverk. Hins vegar eru í gildi sérlög um fjarskiptamarkaðinn sem nær til Landssímans eins og annarra fyrirtækja á þessum markaði. Eftirlit með þessum fyrirtækjum er í höndum Póst- og fjarskiptastofnunar sem m.a. á að tryggja að fyrirtækið sinni skyldum sínum, þar á meðal um alþjónustu.

Ráðherra getur ekki þvingað fyrirtæki til fjárfestinga sem stjórnendur þess telja ekki hagfelldar. Símafyrirtækjunum er hins vegar ljós stefna ráðuneytisins um að fjarskipti á Íslandi séu ódýr, örugg og aðgengileg um land allt.

Fjórðu og fimmtu spurningunni kýs ég að svara saman, en þar er spurt hvenær þess sé að vænta að úrlausn fáist og hvort ráðherra sé tilbúinn til þess að beita sér fyrir fjárveitingum.

Sem svar við því er að af svörum stærstu fjarskiptafyrirtækjanna við spurningum um fyrirætlanir sínar má skilja að fyrirtækin ætli að þétta net sín á þeim svæðum sem þegar er þjónað en leggja áherslu á frekari útbreiðslu. Í þessu samhengi er umhugsunarefni hvort rúmar reikiheimildir eru hamlandi þáttur í aukinni útbreiðslu farsímafyrirtækjanna í dreifðum byggðum og þarf að skoða það.

Að þessu sögðu má ljóst vera að fjárfestingar sem nauðsynlegt er að ráðast í til að auka útbreiðslu farsímakerfa og möguleiki á aukinni gagnaflutningagetu, verður ekki þvingaður upp á fjarskiptafyrirtæki sem starfa á markaði í dag. Í framtíðinni verður uppbygging fjarskiptaneta á þeim svæðum sem fjarskiptafyrirtækin telja ekki arðsamt að ráðast í fjárfestingar á, kölluð fram með útboði á vel skilgreindum þjónustuþáttum, ásamt því að fylgja eftir þeim kvöðum sem lagðar eru á fyrirtækin í lögum og starfsleyfum. Slíkt útboð gæti t.d. falið í sér bættar gagnaflutningalausnir líkt og gert var með útboði á svokölluðu FS-neti fyrir skólastofnanir.

Þess ber auk þess að geta að tækniþróunin er mjög ör og eru lausnir m.a. gervihnattasambönd gott dæmi um slíkar úrlausnir sem tryggja fjarskiptin í hinum dreifðu byggðum.