Lega Sundabrautar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:31:12 (1243)

2003-11-05 15:31:12# 130. lþ. 21.10 fundur 176. mál: #A lega Sundabrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr hvað sé því til fyrirstöðu að báðar leiðir sem verið hafa til athugunar varðandi legu Sundabrautar fari í lögformlegt umhverfismat.

Svar mitt er þetta: Vinnuhópur Vegagerðarinnar og borgarverkfræðings í Reykjavík er að ljúka gerð skýrslu um mat á umhverfisáhrifum fyrsta hluta Sundabrautar, þ.e. kaflans yfir Kleppsvík, sem er fyrsti áfangi af mjög stórri framkvæmd og braut sem í framtíðinni mun væntanlega liggja alla leið upp á Kjalarnes.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir tveimur meginleiðum yfir Kleppsvík, svokallaðri innri leið við Kleppsmýrarveg og ytri leið sem tengist Sæbraut við Holtaveg. Á innri leiðinni er gert ráð fyrir einni útfærslu, þ.e. að Sundabraut verði lögð á fyllingu stærstan hluta leiðarinnar en þó yrðu brýr næst landi bæði að norðan og sunnan. Á ytri leiðinni er gert ráð fyrir þremur mismunandi útfærslum, þ.e. brú í 50 metra hæð yfir sjávarmáli, botngöngum eða jarðgöngum. Vegagerðin hefur lýst sig fylgjandi innri leiðinni, fyrst og fremst vegna þess að hún er mun ódýrari en allar ytri útfærslurnar og skilar meiri arðsemi. Reykjavíkurborg hefur til þessa hins vegar ekki verið reiðubúin til að taka formlega afstöðu með tiltekinni leið.

Það hefur verið venja að leggja fyrir Skipulagsstofnun einn valkost sem vilja framkvæmdaraðila, jafnframt þótt gerð hafi verið grein fyrir öðrum kostum þegar matsskýrslur vegna ákveðinna framkvæmda hafa verið lagðar inn til stofnunarinnar til afgreiðslu í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.

Svo sem að framan getur hefur Reykjavíkurborg ekki mótað afstöðu sína varðandi legu Sundabrautar. Æskilegt væri að sú afstaða lægi fyrir áður en matsskýrslu er skilað. En þess ber að geta og nauðsynlegt að taka skýrt fram að hér er um að ræða feiknarlega stórt og mikið mannvirki sem hefur áhrif á skipulag og umhverfi allt. Út af fyrir sig er því ekki við öðru að búast en að það taki langan tíma að undirbúa þetta mál.

Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir fjárveitingum á fyrsta, öðru og raunar þriðja tímabili samgönguáætlunarinnar. Þetta verk er þar með komið inn í áætlanaferilinn. En hins vegar er ljóst að þarna er um þvílíkt risaverkefni að ræða, eins og kom fram í upplýsingum hv. fyrirspyrjanda er hún nefndi upphæðir sem skiptu milljörðum, að það verður vart farið í þessa framkvæmd nema sérstök fjáröflun komi til.

Lagning Sundabrautarinnar er með allra stærstu verkefnum í þjóðvegakerfinu. Því er nauðsynlegt að huga að sérstakri fjármögnun, eins og getið var um við afgreiðslu samgönguáætlunar á sínum tíma.

Mitt svar er sem sagt að í öllum aðalatriðum verður að leggja til eina leið, en að sjálfsögðu aðra til samanburðar, þannig að báðar hugsanlegar leiðir, ytri og innri, verði skoðaðar mjög vandlega þegar þar að kemur.