Framkvæmdir Landsvirkjunar í Vonarskarði

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:47:35 (1250)

2003-11-05 15:47:35# 130. lþ. 21.17 fundur 63. mál: #A framkvæmdir Landsvirkjunar í Vonarskarði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin. Þau voru mjög á þá leið sem ég átti von á. En það er ástæða til að fá þetta staðfest hér. Þetta má gjarnan færast inn í þingtíðindin þó ekki væri nema sem víti til varnaðar því þarna var auðvitað gengið fram með þeim hætti sem með öllu er ólíðandi og mundi nú sennilega tæpast gerast í dag. Auðvitað verður að leyfa mönnum að njóta þess að atburðirnir eru börn síns tíma og taka mið af þeim viðhorfum sem uppi eru á hverjum tíma. Þó er alveg ljóst að þarna styttu menn sér gróflega leið og hlutur af því tagi að fara með stórvirk tæki og reyna að breyta vatnafari og rennslisháttum fallvatna, meira að segja að flytja það gjörsamlega milli landshluta þannig að vatn sem frá fornu fari hefur runnið til sjávar í norður er tekið og því veitt suður yfir heiðar, er t.d. skýlaust lögbrot. Þarna átti sér stað lögbrot. Þetta er brot á vatnalögum frá 1926 fyrir það fyrsta. Í öðru lagi hafa sjálfsagt verið brotnar þarna reglur sem á þessum tíma hefði verið eðlilegt að fara eftir hvað varðar umsögn frá Náttúruverndarráði, ákvörðun skipulagsyfirvalda og annað í þeim dúr.

Varðandi það að afnema verksummerki þá má út af fyrir sig vissulega spyrja sig að því hvort tilefni sé til þess þar sem náttúran hefur sjálf að verulegu leyti lagfært eða fært þetta í fyrra horf. Þeir sandgarðar sem fyrstir gáfu sig og urðu þess valdandi að vatnið fór nú fljótlega, a.m.k. að hluta til að falla rétta leið, eru að miklu leyti horfnir. En eftir stendur allmikill malargarður sem veitir þó nokkurri ferskvatnskvísl, Rauðá minnir mig að hún heiti, lengra til suðurs og út á sandana en hún mundi fara annars. Mér fyndist koma vel til greina að láta líta á það hvort við hentugt tækifæri væri rétt að rjúfa þennan garð, jafna hann út og leyfa vatninu að falla í sinn upphaflega farveg.