Framkvæmdir Landsvirkjunar í Vonarskarði

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:49:49 (1251)

2003-11-05 15:49:49# 130. lþ. 21.17 fundur 63. mál: #A framkvæmdir Landsvirkjunar í Vonarskarði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í fyrri ræðu fyrirspyrjanda þá skoðuðum við þetta í ferðalagi okkar í sumar þar sem við vorum að skoða svæði sem hugsanlega munu tengjast Vatnajökulsþjóðgarði eða einhvers konar verndarsvæðum norðan Vatnajökuls. Ég stórefa það að það borgi sig að reyna að afmá þessa garða. Þeir eru ekki mjög áberandi í landslagi. Þetta er nú orðið að vissu leyti gróið í dag. Það er mjög líklegt að ef þessi garðar yrðu fjarlægðir þá mundi það skilja eftir sig talsvert rask þarna á staðnum þannig að ég er alls ekki viss um að það mundi borga sig, enda tek ég því svo að fyrirspyrjandi sé ekki að leggja það beint til heldur svona meira að velta þessu fyrir sér.

En það er alveg rétt sem hér kom fram að þarna var ekki haft samband við þá sem eðlilega hefði átt að ræða við heldur farið í þetta verk. Auðvitað er mjög langt síðan og margt hefur breyst í umhverfismálum síðan. Ég tel að svona mundi ekki gerast í dag. Ég held að það sé algerlega útilokað. En á þessum tíma átti þetta sér stað og það er ekki til eftirbreytni. Það er alveg rétt. Þetta er því staða málsins.