Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 15:32:02 (1392)

2003-11-10 15:32:02# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Við eru í 3. umr. þessa máls sem brennur mjög á þingmönnum. Umræðan sem fór fram fyrir helgina var mjög fróðleg og eftirminnileg, þ.e. 2. umr., en við hana komu fram miklar efasemdir hjá þingmönnum og ekki bara þingmönnum stjórnarandstöðunnar um að hér væri staðið nægilega vel að málum.

Þannig má segja að í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar hafi komið fram kannski alvarlegustu efasemdirnar og athugasemdirnar við þetta mál því hv. þm. lýsti því yfir --- ég hélt ég hefði verið með útskrift af ræðunni. Því miður hef ég gleymt henni einhvers staðar, í sæti mínu trúlega. En ég fer þá yfir það eftir minni. Hv. þm. sagði sem svo að það væri vilji landbn., og þá talaði hann fyrir hönd allrar nefndarinnar, að íslensku villtu laxastofnunum yrði þyrmt og að með brtt. landbn. væri verið að reyna að leita leiða til að tryggja að íslensku laxastofnarnir nytu verndar.

Fram hefur komið í máli þeirra vísindamanna sem hitt hafa nefndirnar að máli og í þeim umsögnum sem vísindamenn og opinberar vísindastofnanir hafa skilað í þessu máli að ekkert kemur, eðli málsins samkvæmt, í veg fyrir mögulega erfðablöndun eldislaxins við íslenska stofna annað en að setja eldið upp á land eða tryggja að það sé ekki starfrækt með fiskum af erlendum stofnum. Öll varúðarsjónarmið og allar varúðarráðstafanir sem hv. landbrh. telur sig vera að setja eru samkvæmt þeim yfirlýsingum harla lítils virði. Það er mergurinn málsins. Hér hefur verið litið á málið sem sjúkdómamál. Þannig hefur það verið meðhöndlað í landbrn. Þannig virðist vinna landbrn. á vettvangi tilskipunarinnar hafa haft sterkustu og jafnvel einu skírskotunina, þ.e. til sjúkdómavarna. Umhverfisþátturinn hefur verið hunsaður í málinu öllu og nú reynir landbn. eins og hún frekast getur að klóra í bakkann. En mér sýnist öll þau gögn sem við alþingismenn höfum benda til þess að þrátt fyrir góðan vilja þá séu tækin sem landbn. ætlar að reyna að beita ekki nægilega öflug til að tryggja vernd innlendra laxastofna.

Það eru ákveðnar spurningar í þessu sem hæstv. landbrh. verður að svara. Hér hafa komið upp svo miklar efasemdir. Í umræðunum hér á fimmtudaginn kom í raun margt fram sem er enn ósvarað. Hæstv. landbrh. þarf að gera grein fyrir því í þingsalnum núna við þessa síðustu umræðu málsins. (Gripið fram í: Hvað er það?) Við þurfum t.d. að fá að vita hvernig hæstv. ráðherra rökstyður það að meginreglan skuli nú vera í raun orðin þessi opnun. Hvernig getur hæstv. ráðherra rökstutt það að mögulegt eigi að verða að flytja eldisdýr, krabbadýr og lindýr, til landsins á meðan meginreglan varðandi skautfiska er bann við innflutningi? Við erum að opna heimild til innflutnings eldisdýra, krabbadýra og lindýra, sem ógna innlendu vistkerfi á sama tíma og í lögum er ákvæði um skrautfiska þar sem meginreglan er bann við innflutningi. Vitað er þó að skrautfiskar fara aldrei neitt nálægt villtri íslenskri náttúru. Þetta eru spurningar sem vakna, virðulegi forseti, í þessari umræðu allri og þessi sjónarmið verndarstofnananna okkar og þeirra sem hafa barist hvað mest fyrir vernd íslenskra laxastofna hafa ekki fengið nægilega umfjöllun í þessum sölum.

Mig langar til að geta þess að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hélt landsfund um helgina. Þar var ályktað um umhverfismálin. Sú ályktun kom inn á þau mál sem hér er fjallað um og tók mið af umræðunni sem hér hefur farið fram og á síðum fjölmiðla á síðustu vikum. Landsfundur Vinstri grænna áréttar mikilvægi verndunar líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfa almennt og við leggjum áherslu á verndun fjölbreytileika innan og á milli stofna sömu tegunda.

Fundurinn lýsir því líka yfir að núverandi löggjöf um verndun villtra laxastofna sé ófullnægjandi og við óskum eftir því að tryggt verði að laxeldið leiði ekki til blöndunar framandi stofna við náttúrlega íslenska laxastofna vegna þess að slíkt geti valdið óbætanlegum tjóni. Og þegar við fjöllum um tjónið sem mögulega getur stafað af þessari erfðablöndun, eins og vel var rakið við 2. umr. málsins, þá stendur eftir spurningin um ábyrgðartryggingar eldisfyrirtækjanna varðandi mögulegt tjón sem þriðji aðili þyrfti að þola af hendi þessarar erfðablöndunar.

Því hefur heldur ekki verið svarað óyggjandi hér hvers vegna eldisfyrirtækin eru ekki krafin ábyrgðartryggingar. Er það vegna þess að vitað er að ekkert tryggingarfé eða iðgjald gæti staðið undir því tjóni sem erfðablöndunin getur mögulega valdið? Hvers vegna er þeirri spurningu ekki svarað hér? Hv. landbn. hefur fengið þessi mál inn á sín borð í fyrirspurnum, m.a. frá verndarsjóði villtra laxa, og mér finnst ekki hafa komið fram nægilega skýr svör við þessu. Mér finnst líka grátlegt að þurfa að rifja upp umræðuna sem varð hér þegar við vorum að breyta lögunum um mat á umhverfisáhrifum síðast. Þá komu alvarlegar ábendingar í þessum sal frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar um að verið væri að heimila eldisstöðvar eða undantekningu frá mati á umhverfisáhrifum fyrir stórar eldisstöðvar af þessu tagi og það var gagnrýnt mjög harðlega. Ef meiri hlutinn vill í alvöru vernda innlendu laxastofnana væri auðvitað eðlilegt að hér væru skorðurnar fyrir eldi þrengdar en ekki víkkaðar. Þá er ég t.d. að tala um mat á umhverfisáhrifum. Hvers vegna berjumst við ekki sameiginlega fyrir því að eldisstöðvarnar fari í mat á umhverfisáhrifum, að þær lúti vönduðu mati? Það er satt að segja hálferfitt að trúa á málflutning þeirra sem í orði kveðnu segjast vilja gera allt sem hægt er til að vernda laxastofnana en nota sér ekki þau tæki eða möguleika sem eru til staðar til þess að gera slíkt.

Af því að hér hafa verið nefnd ekki bara eldisdýr heldur líka lindýr og krabbadýr sem geta fylgt með í kaupunum þegar fluttur er inn eldisfiskur, hrogn eða svil, þá verður að hafa í huga, virðulegi forseti, að varúðarráðstafanir gagnvart slíku eru engar til og enginn getur sagt til um það í dag hvaða skaða lindýr af erlendum stofni og erlendum uppruna sem kæmu í íslenska náttúru gætu mögulega valdið í okkar náttúrulega umhverfi og á okkar náttúrulegu vistkerfum. Hér liggur það algerlega fyrir að vísindalegar upplýsingar eru ófullnægjandi til þess að taka þá ákvörðun sem hér er verið að taka. Það hafa öll gögn sýnt okkur. Það er satt að segja hálfkaldranalegt af hæstv. umhvrh. sem hér í umræðunni fyrir örfáum dögum lýsti því yfir að þær skorður sem landbn. væri að reyna að reisa væru henni að skapi og fullnægjandi að hennar mati, þegar vísindastofnanirnar sem heyra undir hæstv. umhvrh. og ráðuneyti hennar eru ósammála hæstv. ráðherra. Hér stangast hlutir svo alvarlega á, virðulegi forseti, að mér finnst þetta eignlega orðið þannig mál að við verðum að fá að taka þetta upp frá grunni. Ef við ætlum að staðfesta þessi bráðabirgðalög með brtt. landbn. þá er lágmarkskrafa að við setjum okkur niður við að skoða umhverfisþáttinn og setja löggjöf á umhverfissviðinu sem mundi tryggja að farið væri út í varnir sem dygðu því að varnirnar sem hér er verið að setja með brtt. eru ekki nægar.

Eitt langar mig til að nefna í umræðunni, virðulegi forseti, sem hefur ekki komið upp á borð okkar fyrr en gæti kannski opnað okkur nýjar dyr eða nýjan glugga, nýjar lausnir. Það er möguleiki okkar á að fá laxeldi við Ísland vottað, þ.e. að fá umhverfisvottun á eldið okkar. Nú vitum við að landbrh. hefur í orði kveðnu lýst sig mikinn verndarsinna. Hann vill vernda íslenskt búfjárkyn og hefur lýst því yfir að hann vilji vernda íslensku laxastofnana. Þá skulum við líka skoða það að ekki er eitt og hið sama þauleldi í kvíum af þeirri stærðargráðu sem nú er í Mjóafirði og verður væntanlega í Reyðarfirði og í Berufirði í fyllingu tímans og svo eldi af manneskjulegri stærðargráðu. Möguleiki er að opnast núna í laxeldisfyrirtækjum í nágrannalöndum fyrir því að minnka eldisfyrirtækin, minnka kvíarnar, fækka fiskum sem settir eru út í þær, votta fóðrið, votta lífsskilyrði fiskanna sem eru í kvíunum og sjá til þess að lyfjagjöfum sé hætt og að miklu náttúrulegri aðstæður séu notaðar við eldið en nú tíðkast í því eldi sem hér um ræðir. Mér finnst fullt tilefni til þess að þingheimur tæki upp umræður um hvaða möguleika við eigum í gegnum vottunarfyrirtæki, þ.e. til að fá þá matvælaframleiðslu sem færi fram í eldisstöðvum okkar vottaða. En þá værum við að tala um grundvallarbreytingu frá því sem tíðkað er hjá þessum fyrirtækjum núna. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það væri þó skapandi umræða, umræða sem mundi í alvöru vera trúverðug að því leyti að þá væri verið að reyna að finna lausnir til þess að forða laxastofnunum okkar frá hruni. Þá væri verið að finna leiðir til þess að atvinnuvegurinn fiskeldi eða laxeldi gæti farið fram á Íslandi í einhverri sátt við þá náttúru sem við þurfum að vernda og fyrir er. Ég sé ekki að við séum að fara nægilega varlega eins og staðið er að málum í dag. Ég sé ekki að þær skorður sem menn telja sig vera að reisa séu fullnægjandi. Ég sé ekki að þau vopn bíti nægilega eða að við séum að tryggja með þessum leiðum vernd laxastofnanna okkar til frambúðar. Þá höfum við fengið til varðveislu og okkur ber heilög skylda til þess að gera allt sem í okkar valdi stendur til að viðgangur þeirra og vöxtur verði tryggður um ókomna framtíð.