Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 16:23:18 (1398)

2003-11-10 16:23:18# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef alltaf gert mér grein fyrir því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er vopnfimur og vígreifur stjórnmálamaður, sennilega afkomandi Þorgeirs Hávarssonar, þess sem gekk fram hjá saklausum manni sem hafði hvílt höfuð sitt á trjábol og hjó það af. Þegar hann var spurður hvers vegna hann gerði það þá sagði hann: Hann lá svo vel við höggi.

Þingmaðurinn gætir sín ekki alltaf og kannski finnst honum að landbrh. liggi nú vel við höggi, en svo er ekki.

Ég fagna því að tillaga þessa færeyska þingmanns sem var gestur hans í Hveragerði á landsfundinum varð ekki að veruleika, að stoppa hv. þm. upp og setja hann í grafhýsi, eins og ég heyrði í fjölmiðlum að hann vildi gera, því að það hefði verið skaði yfir þingið. Stjórnarandstaðan hefði hvorki orðið heill né hálfur maður að mínu viti við að missa þennan glæsilega, snarpa ræðumann af þinginu. Hér vil ég hafa hann til rökræðna.

Ég vil samt segja við hv. þm. að ég hef ekki orðið fyrir neinum áfellisdómi. Landbrn. hefur unnið með landbn. og utanrrn. að þessu máli. Þetta var þjóðréttarleg tilskipun sem hv. þm. skilur. Hins vegar hef ég sent Vigfúsi mínum á Laxamýri bréf til baka þar sem ég upplýsi hann um það mikla samband sem ég hef átt við Landssamband veiðifélaga og svara því sem hann segir.

Nú langar mig að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon: Af hverju lagði hann 15 millj. kr. á ári í innfluttan erlendan stofn þegar hann var landbrh.? Þetta er maðurinn sem sýndi innfluttum erfðastofni, nýjum í landinu, þá virðingu að gera samning um 15 millj. kr. ári í fimm ár þegar hann var landbrh.

Mig langar líka að spyrja hv. þm.: Af hverju rak hann ekki fiskeldið í Lóni í Kelduhverfi upp úr hafinu, einnig á Seyðisfirði, sem fór síðar ofan í Eyjafjörð? Hvers vegna greip hv. þm. ekki til þessara örþrifaráða meðan hann var landbrh.? Af hverju horfði hann bara á þetta?