Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 17:31:11 (1416)

2003-11-10 17:31:11# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[17:31]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stundum held ég að þessi hv. þm. sé heyrnarlaus. Hann var sjálfur fyrir tveimur mínútum síðan með kjaftasögur, kjaftasögur um að það væri ágreiningur á milli landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra í þessu máli og illt á milli þeirra. Þetta voru kjaftasögurnar sem hann ástundaði hér áðan í langri ræðu og leiðinlegri. Þannig liggur það fyrir.

Ég segi það hér að við trúðum því að við fengjum þessa undanþágu áfram. Við trúðum því að þegar málið væri komið fyrir þingið eins og það var, þá gerist það oft í Evrópu að svona öldur lægir, þá sjá menn að vilji stjórnvalda er til að koma málinu áfram og að tilskipuninni yrði fullnægt í haust með lagasetningu hér. Ég trúði því. Það gerðist bara allt annað í Evrópu. Þessa gagnvegi varð að opna með boðum og bönnum. Íslensk stjórnvöld lágu undir því að heilbrigðisástand á Íslandi, ekki bara í eldisdýrum og matvælum, væri óásættanlegt og viðskiptabann sett hingað. Það varð til þess að við urðum að grípa til þessara bráðabirgðalaga. Ég var ekkert einn á þeim báti. Ríkisstjórnin reri öll þeim báti og var sammála um það. Og forseti Íslands skrifaði undir og staðfesti þau lög. Það vita það allir og það veit hv. þm. langbest sem löglærður maður, ef hann hefur ekki gleymt þeim fræðum og þarf á endurmenntun að halda, að brjóta þjóðréttarlega tilskipun er alvarlegt mál í lögfræði. Ég er ekki frá því að nemendurnir í lögfræði verði áminntir um að viðhalda sér í greininni þó þeir sleppi nokkra stund inn á Alþingi Íslendinga.