Aðstoð við sauðfjárbændur

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 13:39:55 (1510)

2003-11-12 13:39:55# 130. lþ. 25.91 fundur 136#B aðstoð við sauðfjárbændur# (aths. um störf þingsins), DrH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 130. lþ.

[13:39]

Drífa Hjartardóttir:

Frú forseti. Ég undra mig á þeirri orðræðu sem fór hér fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni þar sem hann er í rauninni að fordæma þau verk sem ríkisstjórnin er að gera núna með því að leggja 140 millj. kr. til sauðfjárbænda og litið er á sem byggðastuðning í formi eingreiðslu til þeirra núna fyrir áramót. Offramleiðslan á svínakjötinu hefur komið svínabændum mjög illa. Í dag eru aðeins 14 framleiðendur sem framleiða svínakjöt. Og hvað hefur valdið því? Það er vegna þess að samkeppnislögin okkar eru svo meingölluð að þau taka ekki á svona málum. Hver bóndi sem framleiðir svínakjöt hefur verið að greiða með kjötinu á markað meira en helming þess sem það kostar að framleiða kjötið og þetta er vandinn. Við sem vorum í nefndinni leggjum því til að fela landbrh. og viðskrh. að skipa sameiginlega nefnd og ríkisstjórnin hefur tekið þetta upp til að skoða stöðu búvöruframleiðslu gagnvart samkeppnislögum. Þarna tel ég að Samkeppnisstofnun hafi algerlega --- kannski vantar hana lagastoð en alla vega hefur hún ekki staðið sig í því. Mjög mikilvægur árangur náðist hjá nefndinni og ekki síst að ríkisstjórnin féllst á að endurskoða búvörusamninginn ef um það kæmi formleg ósk frá Bændasamtökum Íslands. Ég tel mjög mikilvægt að sú umræða fari fram þegar í stað á meðal sauðfjárbænda.