Samkomulag við heimilislækna

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 14:49:41 (1537)

2003-11-12 14:49:41# 130. lþ. 26.2 fundur 118. mál: #A samkomulag við heimilislækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spyr hvort gengið hafi verið frá samkomulagi við heimilislækna um sjálfstæðan rekstur heilsugæslustöðva í samræmi við viljayfirlýsingu sem undirrituð var af Félagi íslenskra heimilislækna og ráðherra. Ef svo er, hvað felst í því samkomulagi? Ef ekki, hvenær má vænta niðurstöðu?

Í kjölfar mikillar óánægju heilsugæslulækna um starfsfyrirkomulag stéttarinnar sem leiddi til uppsagna heilsugæslulækna á tveimur heilsugæslustöðvum var gefin út viljayfirlýsing þann 27. nóvember 2002 um eftirfarandi:

a. Að beina því til fjmrh. að vinna að því að launamál heilsugæslulækna færu úr kjaranefnd þannig að samið verði um launakjör þeirra í samningum milli ríkisins og lækna, enda komi fram beiðni frá Félagi ísl. heimilislækna um slíkt.

b. Í framhaldi af breytingu á samningsrétti heilsugæslulækna mun heilbr.- og trmrh. beina því til fjármálaráðherra að í viðræðum um gerð kjarasamnings verði lögð áhersla á þróun afkastahvetjandi launakerfis innan heilsugæslunnar, sbr. úrskurð kjaranefndar 15. október 2002.

c. Að beita sér fyrir því að sérfræðingar í heimilislækningum geti annaðhvort starfað á heilsugæslustöðvum eða á læknastofum utan heilsugæslustöðva. Gerður verði nýr samningur um störf á læknastofum sem byggir á samningum sjálfstætt starfandi heimilislækna með áherslu á launahvetjandi kerfi. Sérfræðingar í heimilislækningum fái aðgang að umræddum samningi í samræmi við fjárlög meðan skortur er á heimilislæknum að undangengnu mati eða þörf fyrir heilsugæslulækna á viðkomandi svæði.

Það sem hefur verið gert er eftirfarandi:

Liður a. Félag ísl. heimilislækna óskaði eftir með bréfi, dagsettu 13. febrúar 2003, að ákvörðun um kjör þeirra væri færð frá kjaranefnd. Með bréfi, dagsettu 17. febrúar 2003, beindi heilbr.- og trmrh. því til fjmrh. að hann flytti frv. þessa efnis og var frv. lagt fram á Alþingi þann 6. mars sl. og var samþykkt þann 14. mars 2003.

Liður b. Samninganefnd ríkisins hefur verið falið að semja við heilsugæslulækna um afkastatengd laun og hófust samningaviðræður í október. Haldnir hafa verið tveir samningafundir, þann 3. október og 22. október sl. Samkomulag hefur ekki náðst en næsti fundur hefur verið boðaður þann 19. nóvember nk.

Liður c. Heilbr.- og trmrh. fól samninganefnd ráðuneytisins að ræða við samninganefnd heimilislækna um gerð samnings við heilsugæslulækna sem starfa utan heilsugæslu, en starfsemi þeirra yrði undir yfirstjórn heilsugæslunnar á viðkomandi stað til að tryggja samræmingu í þjónustu heilsugæslunnar við almenning. Haldnir hafa verið tveir fundir, þann 8. apríl og 13. maí sl. Síðan var óskað eftir áliti heilsugæslunnar á þörf fyrir heimilislækningar á starfssvæði hennar með bréfi, dagsettu 10. júlí 2003. Svar barst 9. september sl. þar sem talið var að þörf fyrir heimilislækna á umræddu svæði væri 20--21 læknir. Fyrirhuguð viðbót á næstu árum innan heilsugæslunnar er 16 læknar; í Kópavogi sex læknar, í nýrri heilsugæslustöð í Voga- og Heimahverfi fimm læknar. Fjölga þarf í Árbæjarhverfi um þrjá lækna og tvo í Grafarvogi. Þessi aukning er möguleg í þeirri aðstöðu sem til er í dag eða þegar hefur verið ákveðin og krefst því ekki verulegrar fjárfestingar. Er það því mat heilsugæslunnar að þörf sé á um fimm heimilislæknum utan heilsugæslustöðva.

Í framhaldi af þessu hefur verið ákveðið að funda með heimilislæknum og á ég fund með þeim núna í vikunni til þess að ræða framhald málsins.