Heilsugæsla á Suðurlandi

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:37:13 (1558)

2003-11-12 15:37:13# 130. lþ. 26.7 fundur 232. mál: #A heilsugæsla á Suðurlandi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:37]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Það er gott og blessað að huga að bættri nýtingu og eflingu á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum úti um land en ég held að það hafi verið alvarlegt spor aftur á bak þegar hér var samþykkt fyrir rúmu ári að fella niður tenginguna og lögboðið samráð um skipan heilsugæslumála í héraði við heimaaðila. Í lögunum var áður skylt að hafa samráð við kjörna fulltrúa, við sveitarstjórnir, um skipan heilsugæslumála en það var fellt niður og fellt algjörlega undir miðstýrt ákvörðunarvald ráðuneytisins í Reykjavík. Það tel ég mjög miður. Það á að vinna skipan þessara mála í nánu samráði við heimamenn því það eru þeir sem eiga jú að njóta þjónustunnar fyrst og fremst. Fyrir heimafólk er verið að setja upp þessa þjónustu og þess vegna tel ég þetta miðstýrða ákvörðunarvald sem nú ræður ríkjum í skipan heilsugæslumála í landinu mjög varasamt og skaðlegt.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ætlunin að beita slíkum aðgerðum víða um land, t.d. á Norðurlandi eða Vesturlandi, á viðlíka vegu og verið er að gera á Suðurlandi?