Farþegaskattur

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 18:03:09 (1571)

2003-11-12 18:03:09# 130. lþ. 26.11 fundur 217. mál: #A farþegaskattur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ber hér upp fyrirspurn um farþegaskatta sem hún hefur gert grein fyrir.

Mitt svar er svohljóðandi: Farþegaskattur er tekjustofn vegna flugmálahluta samgönguáætlunar. Farþegagjald hefur verið mikið til umræðu að undanförnu í tengslum við harðnandi samkeppni á flugleiðum og vegna athugasemda ESA sem telur að það samræmist ekki EES-reglum að hafa mismunandi skatta í millilandaflugi og innanlandsflugi. ESA hefur sótt þetta mál svo langt að þann 17. okt. sl. voru réttarhöld í dómstóli EFTA í Lúxemborg um kæru stofnunarinnar á hendur íslenskum stjórnvöldum vegna farþegagjaldsins. Ég ætla ekki að spá fyrir um niðurstöðu dómstólsins en búast má við að dómurinn verði kveðinn upp í fyrri hluta desembermánaðar. Auðvitað mun niðurstaðan skipta okkur máli og hafa áhrif á framvinduna hér á landi svo framarlega sem dómstólinn kemst að þeirri niðurstöðu að gera þurfi breytingar.

Ráðuneytið hefur í samráði við fjmrn. og utanrrn. kannað nýjar leiðir við innheimtu gjaldsins og er það ekki eingöngu vegna athugasemda frá ESA sem það hefur verið til skoðunar. Með hliðsjón af því að farþegagjaldið er umdeilanlegt fól ég Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að meta áhrif gjaldtöku, þar með talið farþegagjalds, á íslenska ferðaþjónustu og jafnframt að rannsaka framlag hennar, sem er nú raunar allt annað mál, til þjóðarframleiðslu með nýjum hætti. Mér finnst mjög mikilvægt að líta á heildarmyndina í þessu sambandi. Það er tilgangslaust að taka eina tegund gjaldtöku út úr en setja síðan aðra í staðinn undir öðru nafni.

Skýslugerð Hagfræðistofnunar er ekki lokið en í vinnslu þessa máls hefur komið fram vísbending um að sérstök gjöld á ferðaþjónustuna hafi meiri áhrif, og þá sérstaklega á flugið, en áður hefur verið talið. Byggir þetta á þeirri staðreynd að eftirspurn eftir flugi virðist mun teygnari eftir því sem framboð lágfargjalda eykst, skattar verða hærra hlutfall fargjalda.

Til einföldunar get ég nefnt sem dæmi að búast má við mun meiri fjölgun farþega þegar verðið lækkar úr 20 þús. kr. niður í 15 þús. kr. en þegar það lækkar úr 40 þús. kr. niður í 35 þús. kr. á farmiða, þó að um sömu upphæð í lækkun sé að ræða.

Verðlagning ferðaþjónustu skiptir miklu máli í því samkeppnisumhverfi sem við hrærumst í. Ég tel, eins og áður sagði, óhjákvæmilegt að taka þessa gjaldtöku alla til endurskoðunar með það að markmiði að kappkosta að gæta allrar þeirrar hagkvæmni sem hægt er til hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Nauðsynlegt er, áður en það er gert, að fyrir liggi niðurstaða dómstólsins og búið verði að vinna skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Breytingar á farþegasköttum verða ekki gerðar nema með breytingum á lögum eins og hv. þingmenn vita. Ég tel koma til greina að gera breytingar á farþegasköttum, ekki síst ef lækkun skatta gæti leitt til meiri flutninga og þar með aukinna tekna eða jafnmikilla tekna eftir sem áður. En það verður að leggja ríka áherslu á það að við verðum að tryggja að við höfum fjármuni til þess að standa undir kostnaði við flugmálaáætlunina og þá mikilvægu og vaxandi þjónustu sem þarf að láta flugrekstrinum í té á flugvöllum landsins.