Úthlutun fjár til kynningar- og markaðsmála í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 18:13:22 (1575)

2003-11-12 18:13:22# 130. lþ. 26.12 fundur 219. mál: #A úthlutun fjár til kynningar- og markaðsmála í ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Undanfarin þrjú ár hafa stjórnvöld veitt ákveðnum fjárhæðum til markaðs- og kynningarmála í ferðaþjónustu, sem er ánægjuefni. Alls eru þetta 770 millj. ef litið er til þriggja ára, þ.e. 2002, 2003 og 2004. Ekki er búið að úthluta til 2004 enda snýst fyrirspurn mín um það.

Eins og ég benti á áðan í umræðunni um fyrirspurn mína hér á undan þá má ætla að við fáum um 9 milljarða á ári í skatttekjur af ferðaþjónustunni. Því er mikilvægt að styðja hana eins og verið er að gera með þessum fjárveitingum. Upphæðin sem kom árið 2002 var 150 millj. og 2003 var hún 300 millj. Þar af fóru 185 millj. til úthlutana erlendis.

En ég er að spyrja hér um úthlutunina fyrir árið 2004, þ.e. um það sem á eftir að úthluta, en það eru 320 millj.

Úr þessum potti sem ég nefndi áðan hafa Flugleiðir fengið mest fé. Þeir fengu alla peningana 2002 og 86% af þeirri fjárveitingu sem veitt var í ár. En nú á sem sagt eftir að útdeila 320 millj.

Það er svo sem ekkert óeðlilegt að Flugleiðir hafi fengið alla fjárhæðina árið 2002 í ljósi þess að þá var ástandið mjög slæmt í flugmálum eftir 11. september. En úthlutun þessara markaðspeninga í fyrra fyrir árið í ár hefur verið harðlega gagnrýnd vegna þess að reglurnar voru mjög þröngar og vegna þess hversu þröngar þær voru þá mismunuðu þær fyrirtækjum í greininni. Ýmis fyrirtæki telja sig hafa verið afskipt. Ég er að spyrjast fyrir um þessar reglur vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að þeim verði breytt þannig að ferðaþjónustufyrirtæki sem starfa t.d. á fyrirtækjamarkaði geti fengið úthlutanir af þessum peningum, þau hafa þá t.d. erlend ferðaþjónustufyrirtæki sem viðskiptavini. En reglurnar fyrir árið í ár miðuðu aðeins við kynningu og markaðsátak gagnvart neytendum beint. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að breyta því.

Ég minni á að markaðsstarf í ferðaþjónustu snýst ekki eingöngu um auglýsingar. Oft hafa t.d. boð fyrir blaðamenn sem skrifa greinar í blöð með myndum haft mun meiri áhrif en auglýsingar. Menn voru líka að takmarka sig við heilsársþjónustu, en stór hluti af ferðaþjónustufyrirtækjum vinnur á markaðnum yfir háannatímann og voru þau t.d. útilokuð líka. (Forseti hringir.) Útbreiðsla fjölmiðla var einnig eitt af atriðunum.

Herra forseti. Ég hef (Forseti hringir.) nú spurt hæstv. ráðherra ákveðinna spurninga sem hann hefur á spurningablaðinu, (Forseti hringir.) þ.e. þingskjalinu, fyrir framan sig.