Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 14:02:49 (1607)

2003-11-13 14:02:49# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Þá hefur hæstv. utanrrh. flutt þingheimi skýrslu sína um utanríkismál sem send var okkur þingmönnum til aflestrar fyrir nokkrum dögum síðan. Þegar ég frétti að skýrsla hæstv. utanrrh. væri komin í pósthólf okkar þingmanna fylltist ég tilhlökkun að lesa hana og leita þar svara við nokkuð mörgum spurningum sem leitað höfðu á hug minn frá því nokkru fyrir síðustu mánaðamót. Ég þóttist vita að ítarlega yrði fjallað um framtíð varnarliðsins á Íslandi og nú fengjust loks einhver svör um framtíð þeirra fjölmörgu starfsmanna sem starfa hjá varnarliðinu í kjölfar þeirra 90 uppsagna sem kynntar voru í október. Mikil urðu vonbrigði mín við lestur skýrslunnar, ekki vegna þess sem í henni stóð, heldur vegna þess sem í hana vantaði og ætlaði ég ekki að trúa mínum eigin augum þegar leið að lokum lestursins að ekki væri einu orði vikið að þessu stórmáli sem umsvifin á Keflavíkurflugvelli og samskiptin við Bandaríkin eru samfélaginu á Suðurnesjum. Hið sama átti reyndar við um stríðið í Írak og aðkomu okkar að því, ekki eitt orð.

Ég vonaði, satt að segja, að hæstv. ráðherra mundi að einhverju leyti víkja frá skrifuðum texta í skýrslunni við munnlegan flutning hennar og drepa þar á þessi brýnu mál. Það hefur hann því miður ekki gert og harma ég það virðingarleysi sem mér finnst í því felast gagnvart íbúum á Suðurnesjum og þeim fjölmörgu starfsmönnum sem horfa framan í atvinnuleysisdrauginn í næstu framtíð.

Þar sem tími minn er takmarkaður, hæstv. forseti, og aðrir hv. ræðumenn hér á undan mér hafa fjallað um málefni Íraks með nokkuð ítarlegum hætti, mun ég einbeita mér að þeim hræringum sem nú eiga sér stað á Keflavíkurflugvelli.

Í kosningabaráttunni í sumar sem leið var mikið rætt um framtíð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og ófáir fundir snerust nánast eingöngu um það málefni þar sem fyrir hafði flogið að fram undan væri talsverður niðurskurður á umsvifum Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli. Jafnframt vissu menn að núverandi hæstv. utanrrh. hafði ekki tekist að ná samkomulagi um eða ganga frá nýrri bókun með varnarsamningnum og framkvæmd hans væri því að einhverju leyti í lausu lofti og nánast einhliða í höndum Bandaríkjamanna. Starfsmenn varnarliðsins voru í óvissu um framtíð starfa sinna og knúðu á um hvort einhver svör lægju á lausu í aðdraganda kosninga, því það vita jú flestir að helst er svara að vænta um mikilsverð mál þegar nær dregur kosningum.

Ekki stóð á svörum. Starfsmenn þyrftu ekki að óttast ef ekki yrði skipt um stjórnarherra. Ef Samf. fengi eitthvert umtalsvert fylgi þyrftu starfsmenn ekki að kemba hærurnar og mundu flestir missa störf sín hið snarasta ef sú ógæfa henti að Samf. tæki hér við stjórnartaumunum.

Virðulegi forseti. Suðurnesjamenn vissu ekki að skömmu fyrir kosningar hafði stjórnarherrunum verið tilkynnt að tekin hefði verið einhliða ákvörðun af hálfu stjórnvalda í Bandaríkjunum um brottför meginhluta hersins frá Keflavíkurflugvelli. Kjósendur vissu ekki um þessa tilkynningu fyrir kosningar og var henni haldið leyndri af þeim er vissu til þess að hún hefði ekki áhrif á úrslit kosninga.

Þegar frá þessari einhliða ákvörðun var skýrt eftir kosningar var jafnframt fullyrt að menn skyldu aldeilis ekki hafa miklar áhyggjur af þessu því hæstv. forsrh. sjálfur væri kominn í málið og mundi tala beint við forseta Bandaríkjanna og kippa þessu í liðinn. Nokkrar áhyggjur gerðu þó vart við sig á Suðurnesjum og m.a. vildu sveitarstjórnarmenn fá að hitta hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. til að fá frá fyrstu hendi upplýsingar um hver staðan væri og hvers væri að vænta í framhaldinu. Ekki töldu hæstv. ráðherrar þörf á eða tilefni til þess að eyða tíma á sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum, en þau svör bárust úr forsrn. að samband yrði haft ef eitthvað breyttist í málinu.

Landsmenn fengu síðan að heyra það ítrekað að tekist hefði með miklu harðfylgi að semja við Bandaríkjamenn um að ekki yrði fækkað í liði þeirra á Keflavíkurflugvelli. Og engar breytingar gerðar á umsvifum þar, nema að undangengnum viðræðum milli þjóðanna og ekki yrði um neinar einhliða ákvarðanir að ræða af hálfu Bandaríkjamanna í málefnum varnarliðsins á flugvellinum. Önduðu nú Suðurnesjamenn léttar í bili, bæði þeir sem stýra sveitarfélögunum og þeir sem störfuðu hjá varnarliðinu. Tekist hefði að semja um frið og öryggi í einhvern tíma og nú gæfist öllum aðilum tímakorn til að skoða með hvaða hætti hægt væri að bregðast við breytingum þannig að minnkun umsvifa á Keflavíkurflugvelli yrði mætt með einhverjum hætti, væntanlega í samstarfi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaganna.

Það var því verulegt reiðarslag, hæstv. forseti, þegar tilkynnt var skömmu fyrir síðustu mánaðamót að nú mundi varnarliðið á Keflavíkurflugvelli segja upp 90 starfsmönnum og einnig yrðu kjör þeirra sem vinnunni héldu skert talsvert og ef þeir sættu sig ekki við þá ákvörðun starfsmannahalds varnarliðsins yrði litið á það sem uppsögn af hálfu viðkomandi.

Gleymum því ekki og höldum því til haga að þetta gerist í framhaldi af þeim fullyrðingum ráðamanna hér að ekki yrðu neinar breytingar á umsvifum á Miðnesheiðinni nema að höfðu samráði við íslensk stjórnvöld.

Verkalýðsfélög á Suðurnesjum töldu strax að ekki hefði verið farið að íslenskum lögum um hópuppsagnir við þessa hópuppsögn varnarliðsins. Það var vegna þess að verulega skorti á um lögboðið samráð við þau áður en til uppsagna kom. Þau hafa einnig dregið í efa þá aðgerð varnarliðsins að segja einhliða upp greiðslum vegna aksturs.

Ekki var nú furða manna minni þegar það upplýstist að utanrrn. hafði verið tilkynnt um fyrirhugaðar uppsagnir nokkru áður en verkalýðsfélögunum var tilkynnt um þær og það fór eins og í sumar, upplýsingunum var haldið og ekki skýrt frá þeim veigamiklu breytingum sem fyrirséðar voru um leið og upplýsingarnar lágu fyrir. Er það furða, virðulegi forseti, þó að starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli þyki lítið til svona vinnubragða koma?

Öll svör yfirmanna varnarliðsins hafa verið ákaflega loðin og óskýr þegar eftir hefur verið leitað. Fréttamenn Víkurfrétta í Reykjanesbæ hafa verið óþreytandi í þeirri viðleitni sinni að leita einhverra skýrra svara um hvað fram undan sé í starfsemi varnarliðsins á Miðnesheiði en lítið hefur verið um skýr svör eins og áður sagði.

Ekki finna þeir frekar en aðrir einhver skýr svör í þeirri skýrslu sem hæstv. utanrrh. kynnti okkur hér áðan. En mér finnst kominn tími til að svara sé krafist og hugað verði að aðgerðum til mótvægis við þá minnkun á atvinnu sem þegar er fyrirsjáanleg og ráðamenn hætti að stinga höfðinu í sandinn og vona að vandinn hverfi hægt og hljótt á braut. Það gerir hann ekki og því fyrr sem sú staðreynd er viðurkennd, þeim mun fyrr er hægt að bregðast við.

Það er von mín, virðulegi forseti, að hæstv. utanrrh. upplýsi okkur nú um stöðu mála eins og hún er. Hefur hann einhverjar upplýsingar um að fyrir liggi að draga verulega úr starfsemi varnarliðsins á komandi mánuðum? Hefur hann kannað hvað hæft er í fréttum um að komandi uppsagnir séu einungis byrjun þess sem koma skal og enn skuli skorið niður um 30% til viðbótar frá því sem nú er gert? Var ekkert samráð haft við íslensk stjórnvöld um þær uppsagnir sem fyrir liggja? Hafa Bandaríkjamenn staðið við þau loforð sem gefin voru um samráð eða hafa þeir gengið á bak orða sinna gagnvart íslenskum stjórnvöldum?

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í málinu hér að framan líta flestir Suðurnesjamenn á starfsemi varnarliðsins sem atvinnumál ekki síður en öryggis- og varnarmál. Það sjónarmið er skiljanlegt í ljósi sögunnar og einnig í því ljósi að varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hefur fram til þessa dags verið einn stærsti og öruggasti vinnuveitandinn á svæðinu. Oft og iðulega hafa Suðurnesjamenn mátt heyra að ekki þurfi sérstakan stuðning við atvinnuuppbyggingu eða atvinnulíf á Suðurnesjum þar sem við sem þar búum höfum herinn og þyrftum því ekkert frekar. Því er ekki óeðlilegt að spurt sé hvort hæstv. utanrrh. muni beita sér fyrir einhverjum mótvægisaðgerðum til að mæta þeim niðurskurði sem þegar hefur verið tilkynntur og einnig hvort hv. ríkisstjórn muni hefja samvinnu við heimamenn um hvernig mæta skuli þeim samdrætti sem blasir nú við.

Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum eru tilbúnir til samstarfs og hafa leitað eftir því við ríkisvaldið, bæði einstakar sveitarstjórnir og einnig Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Bæði meiri og minni hluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar urðu sammála um bókun um þetta mikilvæga mál á bæjarstjórnarfundi fyrir skömmu og hljóðar hún svo, með leyfi forseta:

,,Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir áhyggjum af fjöldauppsögnum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli enda er hér gengið mun lengra en í eðlilegum hagræðingaraðgerðum. Þá virðist vinnubrögðum við uppsagnir vera verulega ábótavant og óviðunandi sú óvissa sem áfram er sköpuð þrátt fyrir fyrirliggjandi uppsagnir. Mikilvægt er að leita allra leiða til að draga úr þeim tilfinningalegu og félagslegu erfiðleikum sem atvinnuuppsögn við þessar aðstæður veldur. Bæjarstjórn telur brýnt að flýta niðurstöðu í viðræðum við íslensk stjórnvöld um atvinnumál á svæðinu. Jafnframt er nauðsynlegt að formlegar viðræður verði teknar upp við ríkisstjórn Íslands um viðbrögð við þeim uppsögnum sem nú þegar hafa komið fram.``

Við sem höfum fylgst með þeirri þróun sem á sér stað í starfsemi varnarliðsins sjáum svo ekki verður um villst að stefnt er að frekari niðurskurði en orðinn er. Fleiri uppsagnir eru í farvatninu og íslenskir yfirmenn sem starfa hjá varnarliðinu hafa verulegar áhyggjur af þeirri niðurskurðarstefnu sem þeir verða vitni að og þeir eru krafðir um.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram á forsíðu að fleiri uppsagnir blasi við. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Forsvarsmenn Íslenskra aðalverktaka fara ekki dult með áhyggjur sínar af verkefnastöðu á Suðurnesjum og blasa uppsagnir við á næstu mánuðum og missirum að óbreyttu. Samdráttur í starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli bitnar hart á Aðalverktökum líkt og öðrum, en rúmlega 200 manns vinna hjá fyrirtækinu á Suðurnesjum. Óttast er að segja þurfi upp a.m.k. fjórðungi starfsmanna á næsta ári, eða rúmlega 50 manns.``

Það er ekki bara samdráttur í störfum sem unnin eru beint fyrir varnarliðið, heldur verða verktakar sem veitt hafa varnarliðinu ýmsa þjónustu líka fyrir barðinu á niðurskurði og samdrætti, sem enginn átti von á nú í ljósi þeirra yfirlýsinga sem heyrst höfðu frá hæstv. ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.

Rétt er að halda til haga að Keflavíkurverktakar sögðu einnig upp u.þ.b. 70 starfsmönnum á síðasta ári. Smærri verktakar munu einnig þurfa að rifa seglin og segja upp fólki á næstunni. Við erum að ræða hér um fleiri hundruð störf til samans sem vitað er um að þegar eru horfin eða munu hverfa á næstu mánuðum eða missirum. Þetta er sá raunveruleiki sem blasir við Suðurnesjamönnum. Þetta er sá raunveruleiki sem við viljum að brugðist verði við af krafti.

Virðulegi forseti. Ég brá mér inn á vef Víkurfrétta fyrr í dag og sá að varnarliðið vildi bjóða þeim starfsmönnum sem nú á að segja upp að hætta strax og fá uppsagnarfrestinn greiddan. Þetta boð hafði komið frá æðstu mönnum varnarliðsins en starfsmannastjórinn á Keflavíkurflugvelli hafði ráðið þeim frá því að gera slíkt þar sem það tíðkaðist ekki á Íslandi og þetta væri ekki samkvæmt íslenskum venjum. Ákveðið var að fara að ráðleggingum hans og munu þeir starfsmenn sem uppsögn fá þurfa að vinna sinn uppsagnarfrest. Ég bara spyr: Hvað vorum við hv. þm. að ræða hér fyrir stuttu? Voru það ekki starfslokasamningar? Tíðkast þeir ekki á Íslandi? Ja, hræsnin ríður ekki við einteyming.

Virðulegi forseti. Ég lýsi enn og aftur undrun minni á því að ekki skyldi fjallað um stöðu varnarsamningsins í skýrslu hæstv. utanrrh. Þrátt fyrir það form sem á umræðunni er hefði ég talið að færi hefði átt að gefast til að fjalla að einhverju leyti um stöðu málsins. Ég geri þá sjálfsögðu kröfu að þegar hefjist vinna í samráði við heimamenn á Suðurnesjum um mótvægisaðgerðir við þann mikla samdrátt sem blasir við öllum þeim sem vilja sjá. Ég geri þá kröfu að stjórnvöld hætti að hegða sér eins og strútar í þessu máli og horfist í augu við þann samdrátt sem blasir við og sýni einhvern vilja til að bregðast við honum. Ærandi þögn stjórnvalda um málið er þegar orðin allt of löng og tími til kominn að viðurkenna staðreyndir, bretta upp ermar og bregðast við.