Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 14:16:10 (1608)

2003-11-13 14:16:10# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka skýrt fram að mér er ekkert að vanbúnaði að ræða stöðu mála á Keflavíkurflugvelli. Ég veit ekki betur en hv. þm. hafi farið þess á leit að ég ræddi við hann í umræðu utan dagskrár um þessi mál. Mér barst síðan sú ósk að hætt yrði við þá umræðu þegar uppsagnir voru afturkallaðar. En að hann krefjist þess að ég eyði þeim stutta tíma sem ég hef á Alþingi, til að ræða atvinnumál á Suðurnesjum, jafnalvarleg og þau eru, finnst mér ekki sanngjarnt. Ég vil upplýsa hann um að þótt ég líti atvinnumál á Suðurnesjum alvarlegum augum þá er ég algjörlega ósammála því að blanda eigi saman öryggis- og varnarmálum Íslands og atvinnumálum á Suðurnesjum. Ég felst ekki á þá skoðun hans að Bandaríkjamenn séu hér á landi vegna atvinnumála. Við verðum að taka sjálfstætt á þeim málum.

Varðandi þá fullyrðingu hans að ýmsu sé haldið leyndu þá gerði ég utanrmn. mjög góða grein fyrir atburðunum fyrir kosningar. Það er rétt að við fengum þessar upplýsingar fyrir kosningar en það er jafnframt rétt að halda því til haga að stuttu síðar átti ég samtal við Colin Powell og jafnframt við Robertson lávarð og því var frestað fram yfir kosningar. En að því hafi verið haldið leyndu vegna kosninganna er algjörlega út í hött. Við fengum niðurstöðu í þetta mál þannig að ný ríkisstjórn gæti tekið á málinu með eðlilegum hætti. Það liggur ljóst fyrir og hefur verið ítarlega farið yfir það í utanrmn.