Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:52:01 (1666)

2003-11-13 17:52:01# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að þessi barátta er miskunnarlaus milli þeirra ríkja sem þarna vilja komast að. Þetta er mikið metnaðarmál margra þjóða. En ég tek undir það með hv. þm. að við getum ekki verið að elta ólar við hvað aðrir eru nákvæmlega að gera, það er ekki rétt af okkur. Við erum fámenn þjóð, að mínu mati ekki lítil þjóð, en við erum fámenn þjóð og þurfum að taka mið af því í máli sem þessu.

Það mun fylgja í þessu sambandi ferðakostnaður og spurning um hvernig á að skilgreina það. Það er t.d. ljóst að utanrrh. á hverjum tíma verður að sinna þessu máli og ég nota tækifærið, eins og í ferð minni til Afríku, í samtölum við utanríkisráðherra níu Afríkuþjóða að tala um þetta mál og koma á samböndum við þessa aðila. Sama mun ég að sjálfsögðu gera að því er varðar ferð í næsta mánuði til Írans. Það er mjög mikilvægt að við kynnumst betur aðstæðum í Afríku, aðstæðum í löndum múslima og að við setjum okkur inn í mál þessara landa til þess að öðlast meiri skilning á aðstæðum og til þess að ávinna okkur meira traust til að tala um málefni þeirra í framtíðinni og vera með í því að kveða upp dóma sem geta skipt þessa aðila miklu máli.

Ég tel að við höfum alla burði til þess í Afríku, t.d. í Alþjóðabankanum, öll mál þar snerta mjög Afríkuríkin.