Flutningskostnaður

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:28:12 (1693)

2003-11-17 15:28:12# 130. lþ. 28.1 fundur 147#B flutningskostnaður# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Kristján L. Möller:

Virðulegur forseti. Það kemur hér skýrt fram að ríkisstjórnin hafi samþykkt að senda ríkisstjórnarflokkunum frv. um olíugjald. Ef það er eins og það hefur hingað til birst okkur í þinginu mun það hafa hækkun í för með sér.

Ráðherra byggðamála vísar þessu til fjmrh. Það er alveg rétt og þess vegna spyr ég hvort hugur og hönd vinni ekki saman í þessari ríkisstjórn ef hæstv. fjmrh. kemur með þriðja mál á dagskrá og hækkar þungaskatt um 8% og á svo að koma með olíugjaldsfrumvarp sem mun hafa enn meiri hækkun í för með sér og svo ætlar ráðherra byggðamála innan sömu ríkisstjórnar að koma með einhverjar tillögur einhvern tíma seinna um að jafna flutningskostnað.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé hægt að lækka flutningskostnað mjög fljótt. Það þarf ekki að spyrja Eftirlitsstofnun Evrópusambandsins um það ef við tökum þá ákvörðun að lækka skattheimtu af flutningastarfsemi. Þá munu flutningsgjöldin lækka og við þurfum ekki að spyrja einn eða neinn. Það eina sem þarf að gera er að ríkisstjórnin spyrji sjálfa sig hvað hún vilji gera í þessum málum og fari að vinna að því sem ein heild en ekki að fjmrh. gangi fram með skattahækkanir og svo ætli einhverjir aðrir að nota peningana til að deila einhverju örlitlu út, herra forseti.