Staða nýsköpunar á Íslandi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:24:46 (1726)

2003-11-17 16:24:46# 130. lþ. 28.94 fundur 157#B staða nýsköpunar á Íslandi# (umræður utan dagskrár), SKK
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Staða nýsköpunar á Íslandi er mjög góð. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á samkeppnisstöðu Íslands gagnvart öðrum ríkum og stöðu nýsköpunar hér á landi sýna að Ísland er í fremstu röð meðal þjóða heims. Ástæðurnar má rekja til þeirrar stefnu sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa fylgt þegar kemur að nýsköpun. Sú stefna hefur miðað að því að lækka skatta á fyrirtæki, styrkja menntakerfið og auka fjárframlög til rannsókna og þróunarstarfs. Með stefnu sinni hafa stjórnvöld lagt grundvöllinn að nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Árið 1990 þegar vinstri menn voru síðast við völd vörðu Íslendingar einungis 1,1% af vergri þjóðarframleiðslu til rannsókna og þróunarstarfs. Árið 2001 og námu framlög til þessa málaflokks 3% af þjóðarframleiðslunni en það er markmið sem Evrópusambandið ætlar sér að ná árið 2010. Á sama tíma hafa framlög til menntamála verið aukin mjög myndarlega. Árið 1995 vörðu Íslendingar 5,2% af vergri þjóðarframleiðslu til menntamála. Árið 2002 námu framlögin 6,2%. Hagvöxtur var á þessum tíma 4% að meðaltali. Örfá ríki OECD geta státað af slíkum árangri.

Að sama skapi hafa fjárlög til menntamála sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkissjóðs aukist verulega. Árið 1990 voru framlög til menntamála innan við 12% af heildarútgjöldum ríkissjóðs en eru nú í kringum 15%.

Þá er rétt að benda á að árið 1995 voru framlög til menntamála 26,7 milljarðar á verðlagi ársins 2000. Árið 2000 námu þessi framlög alls 41,5 milljörðum. Það verður ekki fram hjá því litið að stjórnvöld hafa lagt gríðarlega mikið af mörkum til að örva nýsköpun og fjárfest í menntun og rannsókna- og þróunarstarfi. Þar við bætist að stjórnvöld hafa lækkað tekjuskatt fyrirtækja úr 50% niður í 18% en hagstætt skattumhverfi fyrirtækja er ein árangursríkasta leiðin til að örva nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Virðulegi forseti. Í ljósi þessara lykilatriða sem ég hef rakið verður ekki annað sagt en staða nýsköpunar á Íslandi sé góð, enda hafa stjórnvöld á síðasta áratug lyft grettistaki með því að örva hana með þeim aðgerðum sem ég hef hér lýst.