Staða nýsköpunar á Íslandi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:36:47 (1731)

2003-11-17 16:36:47# 130. lþ. 28.94 fundur 157#B staða nýsköpunar á Íslandi# (umræður utan dagskrár), KJúl
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:36]

Katrín Júlíusdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er um ákaflega mikilvægt mál að ræða, mál sem snertir atvinnuhætti framtíðarinnar og möguleika komandi kynslóða til að lifa góðu og eftirsóknarverðu lífi á Íslandi. Ég tel afar mikilvægt að hlúð verði sérstaklega að nýsköpun í tækniiðnaði á Íslandi af mörgum ástæðum. Þar liggja mörg af stærstu tækifærum atvinnuuppbyggingar á næstu missirum. Því fer fjarri að stjórnvöld hafi sinnt þessum lífvænlega vaxtarsprota og má fullyrða að þau hafi þar með brugðist hlutverki sínu hrapallega, enda tala tölurnar sínu máli líkt og fram kom í máli hv. málshefjanda.

Stefna stjórnvalda í nýsköpun í atvinnulífinu er ómarkviss, handahófskennd og til hennar skortir fjármagn. Til að mynda er ekki nægur aðgangur að þolinmóðu fjármagni og styrkjum til nýsköpunarfyrirtækja og því fer fjarri að lagt sé nægjanlegt fjármagn til rannsókna innan menntakerfisins á þessu sviði.

Á Íslandi höfum við kjöraðstæður til að vera leiðandi í nýsköpun á sviði tækniiðnaðar. Við erum tæknivædd þjóð og vel tæknilæs og því allur aðbúnaður fyrir hendi til þess að Íslendingar geti orðið leiðandi á þessu sviði á alþjóðavettvangi. En til þess þurfa íslensk stjórnvöld að vilja það og sýna þann vilja í verki.

Íslensk stjórnvöld hafa allt of lengi verið í sama farinu þegar að atvinnumálum kemur og er framtíðarstefnumótun í atvinnumálum eitt stærsta verkefni stjórnmálanna á næstunni. Það verður að eiga sér stað heildarstefnumótun í atvinnumálum þar sem við horfum gagnrýnin á samfélagið, metum hvar við stöndum og í framhaldi af því hvert við viljum fara með okkar fámenna samfélag, finna tækifærin, setja okkur markmið, hlúa að þeim og fylgja þeim eftir.

Stuðningur við nýsköpun á öllum sviðum á að vera til staðar á langtímagrundvelli, ekki sem stök átaksverkefni. Góður vilji er ekki nóg, heldur þarf að fylgja honum fast á eftir því annað er sóun á dýrmætu fjármagni.