Einkaleyfi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:58:31 (1736)

2003-11-17 16:58:31# 130. lþ. 28.3 fundur 303. mál: #A einkaleyfi# (EES-reglur, líftækni) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lögum um einkaleyfi, með síðari breytingum. Eins og hefur komið fram í umræðunni erum við að innleiða tilskipun frá Evrópusambandinu um lögvernd uppfinninga í líftækni, og leyfi ég mér að halda því fram að ef við værum ekki í því Evrópusamstarfi sem við erum í í dag þá væru þessi mál ekki komin á dagskrá hér á Alþingi. En vissulega er þetta mjög mikilvæg lagasetning og við munum auðvitað taka okkur þann tíma í iðnn. sem við þurfum til að skoða þetta en ég efast ekki um að þetta gangi greiðlega í gegnum nefndina, enda greinilega mikilvægt.

En mig langar aðeins að nefna, af því að seinna í dag munum við ræða um uppfinningar starfsmanna, að það er vissulega svo að víða, t.d. í Evrópu eru starfsmenn ekki nógu vel verndaðir hvað varðar réttindi á sínum eigin uppfinningum þegar þeir eru í vinnu hjá öðrum. Þar er aðallega um að ræða margmiðlunartæknina þar sem starfsmenn sem starfa við margmiðlunarfyrirtæki og gera þar ákveðnar uppfinningar og eiga þar ákveðin hugverk fá ekki að njóta afraksturs uppfinninga sinna þegar um er að ræða hluti sem síðan eru mikils virði. En það er nú aukaatriði í þessu.

Ég ætla bara að taka undir að við munum skoða þetta vel og ég efast um að þetta taki mjög langan tíma í nefndinni, þannig að ráðherra þarf ekki að hafa áhyggjur af því að þetta mál klárist ekki fyrir tiltekinn tíma.