Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:20:43 (1753)

2003-11-17 18:20:43# 130. lþ. 28.5 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:20]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. hefur á réttu að standa hvað það varðar að við erum að bregðast við því að uppbygging hitaveitna er í raun ekki orðin samkeppnishæf við niðurgreitt rafmagn, það er rétt hjá hv. þm. Hins vegar er ég ósammála honum með það að við eigum að minnka niðurgreiðslur vegna upphitunar með rafmagni. Þess vegna er þetta sú leið sem ég legg til að verði farin og veit ekki betur en að þingflokkur sjálfstæðismanna hafi samþykkt framlagningu þessa frv. En hugsanlega er hv. þm. undantekning og muni ekki styðja málið en þá verður það bara að vera þannig.

En ég held að hv. þm. skorti mjög þekkingu á aðstæðum á landsbyggðinni og ég held að það hefði verið mikilvægt fyrir hv. þm. að kynna sér landsbyggðarmál meira vegna þess að ég efast ekkert um að hann vilji hafa þekkingu á þeim málum sem hann tekur þátt í að ræða hér á hv. Alþingi.