Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:56:38 (1764)

2003-11-17 18:56:38# 130. lþ. 28.5 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:56]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kristján Möller er búinn að tala í sig mikinn hita og hefur hafið miklar talningar á þingmönnum í salnum. Það er eins og maður sé kominn í réttir. (Gripið fram í: Já, það er rétt.) En mig langar til þess að spyrja hv. þm. hvort hann telji ekki að niðurgreiðslukerfið eins og það er núna sé réttara. Það er miklu gegnsærra með því að nú er sótt um niðurgreiðslurnar. Svo var ekki áður. Mig langar líka að spyrja hann hvort hann geti komið með dæmi um húshitunarkostnað hjá dýru hitaveitunum. Eins langar mig til að spyrja hann hvað hann telji að niðurgreiðslurnar þurfi að vera háar. Núna eru þær 868 millj. á fjárlögum. Það tel ég vera vel í lagt. Það er ósköp auðvelt að vera í minni hluta á Alþingi og vísa endalaust á ríkissjóð. Ég tel að verið sé að fara miklu betur með þessa fjármuni núna, með niðurgreiðslu á rafhitun og olíukostnaði til húshitunar, með því að gera kerfið mun gegnsærra en það var.

Ég veit ekki annað en að hitaveitur sem hafa átt í vanda hafi fengið stuðning frá ríkissjóði með sérstökum framlögum.