Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 15:53:14 (1822)

2003-11-18 15:53:14# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var á margan hátt ánægjulegt að hlusta á hv. þm. Gunnar Birgisson. Ég þakka sérstaklega fyrir undirtektir hans við ræðu mína áðan vegna þess að hann talar alveg á sömu nótum. Það sem vantar hins vegar hjá hv. þm. er að draga réttar ályktanir í málinu. Ábendingar hans eru allar hárréttar. Það er nákvæmlega þetta sem hefur verið að gerast og hv. þm. veltir upp ýmsum spurningum. Það er út af fyrir sig ekkert flókið að svara þeim, hv. þm.

Ég sagði áðan í ræðu minni að fjármálastjórn ríkisins skorti aga og það er nákvæmlega það sem er að gerast. En til þess að geta veitt þennan aga þá verða menn að byrja á því að horfa á raunveruleikann. Það þýðir ekki ár eftir ár að koma með fjárlög sem taka ekki mið af raunveruleikanum. Þá gerist þetta sem við höfum verið að horfa á og erum að norfa á núna ár eftir ár, að í fjáraukalögum koma sömu stofnanir við sögu.

Ég rifjaði það upp í ræðu minni áðan að árið 1999 var heilbrigðiskerfið núllstillt eins og það er kallað. Þá var ákveðið og sagt í umræðum í þinginu að fjárlaganefndin mundi kalla eftir ákveðnum upplýsingum mánaðarlega. Slíkt hefur ekki verið gert. Það hefur ekkert verið gert til þess að reyna að ná utan um þennan vanda. Það er vandamálið.

Ég get rifjað þetta upp enn einu sinni fyrir hv. þm. til að hann átti sig á hvar vandinn liggur. Ríkisendurskoðun hefur komist að þeirri niðurstöðu að meginvandamálið í heilbrigðiskerfi Íslendinga og rekstri þess sé að stjórnvöld skorti stefnu. Og á meðan stjórnvöld hafa ekki stefnu þá er ekki von á öðru en að við lifum áfram við það að ár eftir ár munu sömu stofnanir vera hér á fjáraukalögum og slíkt er auðvitað til skammar.