Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 16:46:50 (1834)

2003-11-18 16:46:50# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins vegna þess síðasta sem hv. þm. sagði, þá er það rangt hjá hv. þm. að þetta hafi aðeins verið stormur í vatnsglasi. Hér er um miklu stærra mál að ræða en að hægt sé að lýsa því á þann hátt.

Það er rétt hjá hv. þm. að auðvitað getur ríkisstjórn sent bréf hvert sem er. En það hlýtur a.m.k. að valda hv. þm. áhyggjum þegar ríkisstjórnin er farin að senda Alþingi sjálfu bréf um að menn megi ekki ræða við nefnd sem starfar á vegum þingsins.

Það er rétt hjá hv. þm. að við getum óskað eftir því að fá hverja sem er í viðtal í fjárln. Við höfum hins vegar getað treyst því nokkurn veginn undanfarin ár að við þyrftum ekki að fara nákvæmlega yfir hverja einustu stofnun og velta því fyrir okkur hvort við þyrftum að fá hana í heimsókn, því það hefur venjulega verið þannig að þær stofnanir sem telja að hvað verst hafi verið farið með þær hafa komið sjálfviljugar.

Nú er það svo, hv. þm., að við þurfum að fara nákvæmlega í það í næstu viku að útbúa þennan lista. Ég vona að það verði rétt hjá hv. þm. að það muni ekki tefja störf okkar. En við verðum að gefa okkur tíma til þess að fara yfir stofnanir ríkisins og velta því fyrir okkur hvaða stofnanir við þurfum að fá í heimsókn. Það verður vonandi engin tregða á því, sem hv. þm. sagði að yrði ekki, að við fáum upplýsingarnar sem við höfum beðið um. En ég spyr, frú forseti: Hvað hefur valdið því að þessar upplýsingar liggja ekki fyrir? Það var beðið um þær fyrir mörgum vikum og það getur ekki verið að þær séu ekki til. Því trúi ég ekki.

Frú forseti. Hv. þm. kom inn á mjög stóran málaflokk, heilbrigðismálin, og velti þar upp ýmsum hugmyndum. Hann nefndi ýmislegt sem hægt væri að ræða mun nánar. Fyrst og fremst það sem hv. þm. var að velta fyrir sér, sem ég hafði nefnt að væri stefnuleysi eða agaleysi, eins og hann vildi orða það, það fer nefnilega saman. Hv. þm. lýsti vandanum mjög vel vegna þess að hann er fjölbreytilegur. En meðan við höfum ekki stefnu í málunum, meðan við vitum ekki hvað við viljum kaupa eins og hv. þm. nefndi, er ekki von á öðru en að við verðum árlega í vanda. Vandinn þarf ekki endilega að vera vegna þess að sumar stofnanir þurfi meira fé eða vegna þess að sumar stofnanir fái of mikið fé. Það er allt önnur umræða. En við þurfum greinilega að fara að móta stefnu í málaflokknum eins og minn flokkur hefur ákveðið að gera og það væri ráð að ríkisstjórnarflokkarnir mundu ákveða slíkt hið sama.