Stytting náms til stúdentsprófs

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:18:22 (1916)

2003-11-19 14:18:22# 130. lþ. 31.94 fundur 173#B stytting náms til stúdentsprófs# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er að mörgu leyti athyglisverð. Hún er kannski einkum og sér í lagi athyglisverð fyrir þær sakir að stjórnarandstaðan hefur forðast það eins og heitan eldinn að ræða málið á forsendu þeirrar vinnu sem nú stendur yfir. Það er búið að setja þetta mál í víðtækt samráðsferli og það er búið að kynna það fyrir stjórnarandstöðunni og öðrum landsmönnum. Hér er um að ræða víðtækt samráðsferli sem framhaldsskólanemar, framhaldsskólakennarar og Félag íslenskra framhaldsskóla hefur aðild að. Þetta starf er þegar hafið. Það víðtæka samráðsferli sem menn sakna hér er því hafið og menn vita að það er hafið. Samt sem áður velja menn þá aðferð að grafa skotgrafirnar án þess að taka tillit til þeirra upplýsinga sem fyrir liggja.

Í hvaða tilgangi eru menn að ræða málið á allt annarri bylgjulengd en það er í? (Gripið fram í: Spurðu Framsókn.) Þetta er mjög merkilegt. Menn hafa talað um að þetta mál væri til þess gert að spara peninga og er þar um misskilning af hálfu stjórnarandstöðunnar og misskilning af hálfu Framsóknar að ræða. Það er ekki verið með þessum hætti að spara peninga, þvert á móti erum við að leggja á hverju ári, og verið að leggja drög að því að gera það einnig á þessu ári, meiri peninga til framhaldsskólanna. Það er hins vegar ljóst að þriggja ára nám mundi þýða sparnað fyrir nemendur sjálfa. Markmiðið með þessum breytingum er að slá í engu af kröfum um gæði námsins. Það verk sem hefur verið sett í gang hefur þann tilgang beinlínis, að tryggja að ekki verði slegið af gæðum námsins.

Það er að sjálfsögðu verið að tala um að nýta tímann í skólunum betur. Ég vil minna menn á það að þegar kom fram gagnrýni á grunnskólana varðandi stærðfræðinám, var það fyrst og fremst gagnrýni um að tíminn í skólunum yrði nýttur betur. Ég held því að það sé mjög mikilvægt í þessari umræðu að benda á það að stjórnarandstaðan hefur ekki viljað fara í umræður um málið á þeirri forsendu sem það er nú rekið. Menn hafa viljað stinga hausnum í sandinn og ræða bókstaflega ekki neitt um það ferli sem hefur verið sett í gang, sem er samráðsferli. (Gripið fram í: Ertu að tala við Framsókn?)