Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:05:50 (1938)

2003-11-19 15:05:50# 130. lþ. 31.3 fundur 297. mál: #A samþjöppun á fjölmiðlamarkaði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ákaflega tregur til lagasetningar um fjölmiðla. Við höfum búið við það í okkar lýðræðissamfélagi að fjölmiðlar hafa leikið og starfað án verulegs lagaramma og ég tel að það sé æskilegast. Fjölmiðlar eru fjórða valdið og það þýðir að þeir eigi að vera sem óháðastir hinum þremur.

Ég tel hins vegar og tek undir með þeim sem hér hafa talað að það þarf að gæta að þrennu. Það þarf að gæta að gegnsæi um eigendur og rekstur, það þarf að gæta þess að ábyrgð fjölmiðlanna á efni sínu sé klár og skýr og það þarf að gæta þess að ritstjórnir séu sjálfstæðar frá eigendum og útgáfustjórn að öðru leyti.

Það sem við ættum kannski að byrja á að gera hér, hið tvíeina vald löggjafar og framkvæmdar, er að gæta að okkur sjálfum og, eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi, að koma Ríkisútvarpinu í það stand að það geti talist vera sjálfstæður óháður fjölmiðill, gegnsær og í þjónustu við almenning.