Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:16:33 (1946)

2003-11-19 15:16:33# 130. lþ. 31.3 fundur 297. mál: #A samþjöppun á fjölmiðlamarkaði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég hef verið spurður m.a. um hvað þurfi til að koma í samþjöppun á fjölmiðlamarkaði til að þau viðbrögð sem ég hef nefnt hér eigi við. Ég hef ekki hugsað það mál til enda. Svona mál eru nýkomin upp í þann brennidepil sem þau eru nú. Ég hef hins vegar vakið athygli á því hvaða reglur gilda sums staðar annars staðar. Ég hef haft mjög skamman tíma til að láta vinna það og ætla að láta gera það betur þannig að þær upplýsingar liggi frekar fyrir.

Til viðbótar því sem ég hef áður nefnt til að mynda varðandi Bandaríkin þá er þar ekki bara þeim sem eiga dagblöð bannað að eiga sjónvarpsstöðvar. Þar er bannað að einn aðili eigi sjónvarpsstöð sem nær meira en til 35% áhorfenda. Það er lagt bann við því.

Menn nefna síðan markaðinn og hina almennu samkeppnina, hvort hún geti ekki leyst þetta mál. Það snertir auðvitað viðkvæman streng í mínu brjósti. Það fyrsta sem mér dettur í hug er að markaðurinn eigi auðvitað bara að leysa þetta mál. En það sýnir einmitt sérstöðu á þessum markaði sem er út af fyrir sig samkeppnismarkaður, en það sýnir sérstöðu hans að við erum öll tilbúin til þess á þessu markaðssviði að reka ríkisrekna starfsemi, ríkisútvarp. Ég er tilbúinn til þess. Ég hygg að flestir hér inni séu tilbúnir til þess. Það segir heilmikla sögu um hið sérstaka eðli sem er á þessum markaði, að menn vilja tryggja að ákveðin stofnun sé rekin með tilteknum hætti eftir ákveðnum reglum á þessu markaðssviði. Meira að segja harðir einkavæðingarmenn eins og ég geta ekki hugsað sér að einkavæða Ríkisútvarpið. Það segir allt sem segja þarf um þennan markað þannig að samkeppnin leysir ekki þetta mál, því miður.