Nefndadagar

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:05:58 (1967)

2003-11-19 18:05:58# 130. lþ. 31.93 fundur 171#B nefndadagar# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:05]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef hugsað mér að taka þetta mál upp á fundi formanna þingflokka með forseta en það er nú svo að nefndadagarnir eru hugsaðir til þess að fara yfir þau mál sem hafa komið fram í þinginu og hafa verið hér á dagskrá. Þeir eru þá að sjálfsögðu hugsaðir í kringum þau mál sem liggja fyrir þinginu. Ég nefndi áðan málaskrá með gríðarlegum fjölda mála sem hæstv. forsrh. boðaði að ríkisstjórnin mundi leggja fram í upphafi þings. Þessi mál hafa ekki komið fram, virðulegi forseti, og í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur ekki lagt fram þau mál sem hún hyggst ræða í þinginu á þessum vetri hefði kannski verið eðlilegt að endurskoða starfsáætlun þingsins og velta því fyrir sér hvort tímanum væri betur varið öðruvísi.

Ég vil líka, virðulegi forseti, nefna þetta í því samhengi að ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum okkur far um að skipuleggja þingstörfin betur þannig að tíminn nýtist betur og þær tarnir sem við höfum tekið í þinginu séu ekki jafnkrappar og þær eru og hléin jafnmikil á milli. Ég held að það hefði verið mjög gott ef hæstv. forseti hefði skoðað þetta áður með tilliti til þeirra mála sem fram eru komin.

Hins vegar vil ég fyrst og síðast að við lærum af þessu. Ég held að það sé mikilvægt að þetta mál verði tekið upp í hv. forsn. og þar geta menn velt fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að gera þetta upp áður en haldið er inn í næstu nefndadaga.