Stuðningur við krabbameinssjúklinga

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:47:19 (1984)

2003-11-19 18:47:19# 130. lþ. 31.9 fundur 263. mál: #A stuðningur við krabbameinssjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:47]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Sem betur fer eru miklar framfarir í hjálpartækjum fyrir krabbameinssjúka. Eðli málsins samkvæmt hlýtur að þurfa að endurskoða þær reglugerðir sem þar gilda. Þær endurskoðanir verða að vera í takt við þá tilveru sem við búum við og þær framfarir sem hafa orðið. Auðvitað tökum við mið af því í ráðuneytinu.

Ég hélt því ekki fram að hv. þm. krefðist aukinna fjármuna í þetta. Ég tel einboðið að við förum yfir málið, þar á meðal það mál sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi og ég þekki. Akkillesarhællinn á sínum tíma var sá að þar var ekki viðurkennd heilbrigðisstétt sem þjónaði en við þurfum auðvitað að skoða það mál. Ég veit af því.

Varðandi ósveigjanleika kerfisins, mat á hverjum einstaklingi og þörfum hans, þá tel ég sjálfsagt að skoða þau mál. Það kom reyndar fram í svari mínu að sjálfsákvörðunarréttur er virtur í fjölmörgum tilfellum. Ég tel að þróa þurfi þessi mál þannig. Ég endurtek, og ég tel að það hafi komið fram í máli allra ræðumanna, að þessar reglur þyrfti að endurskoða, m.a. vegna þeirra breytinga sem hafa orðið í meðferð við þessum alvarlega sjúkdómi og þróun hjálpartækja.