Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:09:25 (2045)

2003-11-25 17:09:25# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:09]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrir liggur að gert var samkomulag við Öryrkjabandalagið. Það liggur held ég einnig fyrir og hefur komið fram að við mat á því hvað það samkomulag mundi kosta þá hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að það lægi einhvers staðar á bilinu 1.200--1.500 millj., sennilega nær 1.500 millj. Það er bara svo, virðulegi forseti, að samkomulagið kostar meira en 1.000 millj. og við það stendur. Ég heyrði það á orðum hæstv. heilbrrh. að hann hafði fullan vilja til þess að takast á við þetta mál og reyna að leysa það, hvort sem það getur orðið nú við þessa gerð fjárlaga eða á næsta ári.

Virðulegi forseti. Ég veit einnig að forsvarsmenn Byrgisins komu á fund fjárln. í haust og ræddu við meiri hlutann um vanda Byrgisins, um það sem menn kalla fortíðarvanda Byrgisins, þ.e. það sem stendur út af eftir hraða og öra uppbyggingu í Rockville á Miðnesheiði og stóð út af þegar menn þurftu að fara þaðan. Sá vandi er enn þá óuppgerður, því miður. Talið er að ná megi nauðasamningum með því að lenda málinu kannski á einhverjum 15 millj. En heildarkröfur eru upp á 27 millj.

Þetta veit ég eða ég treysti því a.m.k. að forustumenn Byrgisins hafi ekki sagt hv. þingmanni neitt annað en það sem þeir segja mér. Við hljótum að vera að tala út frá svipuðum upplýsingum. En ef það er álit hv. þm., eins og hann sagði hér, að samningur sé til um málið þá tek ég auðvitað undir það að meiri hluti fjárln. beiti sér fyrir því og leggi því lið að um málið verði samið upp á nýtt þannig að vandinn leysist.