Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 18:09:57 (2058)

2003-11-25 18:09:57# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[18:09]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz, sem jafnframt er formaður heilbr.- og trn. og talsmaður Framsfl. í heilbrigðismálum, auk hæstv. ráðherra auðvitað, almenna hugvekju um heilbrigðismál. Hún fór fyrst og fremst yfir sviðið, sumpart út frá mórölskum forsendum og varpaði fram ýmsum spurningum, siðferðilegum og praktískum, sem þyrfti að leita svara við. En minna varð um svörin, því miður. Ég hygg að þeir sem hlýtt hafa á ræðu hv. þm. og eru ókunnir bakgrunni hennar hafi ætlað að ræðumaður kæmi úr hópi stjórnarandstæðinga því að hv. þm. fór yfir það að almennt talað væru heilbrigðismál í þokkalegasta standi en ýmsu þyrfti að breyta og ýmislegt að laga.

Ég kem þá að kjarna málsins. Ég ætlaði eingöngu að horfa til þarfarinnar þar sem hún er brýnust, þar sem fólkið er flest, hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem 70% þjóðarinnar býr. Þannig er að flokkur hv. þm. hefur farið með stjórn heilbrigðismála síðustu átta árin. Á síðustu átta árum hefur verið bent á það, ítrekað og aftur, að hér brenni eldurinn heitast gagnvart öldruðum. Þeir eru hér hundruðum saman í biðröð í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum. Hér brennur eldurinn heitast þegar kemur að heilsugæslumálum.

Það er eftirtektarvert að í fjárlagafrv. sem hér um ræðir er í báðum þessum málaflokkum horft út á land. Gott og vel, ekki ætla ég að gera lítið úr því. En það er á þessu svæði, m.a. í kjördæmi hv. þm., sem knýjandi þörf er á tafarlausum úrbótum í öldrunarmálum. Þær er ekki að finna í þessu fjárlagafrv. né heldur í heilsugæslumálum. Þar fór hv. þm. rangt með. Það er ekki gert ráð fyrir þremur nýjum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Raunar er eingöngu gert ráð fyrir einni og að önnur taki til starfa í kjördæmi þingmannsins seint á næsta ári. Það er sem sagt ein og hálf heilsugæslustöð í þessu frv. Það er nú allt sem er fast í hendi í þessum efnum.

Það er ekki að undra að flokkur hv. þm. vilji skila þessu verkefni, heilsugæslustöðvum á landinu, í hendur sveitarfélaga þegar aðstæður eru eins og raun ber vitni.