Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 21:05:39 (2087)

2003-11-25 21:05:39# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[21:05]

Drífa Hjartardóttir:

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu um fjárlögin eru tímamót því nú er í fyrsta skipti lögð fram tekjuáætlun þannig að nú getum við séð bæði tekjur frv. og gjöld hlið við hlið.

Hæstv. forseti. Mikil vinna hefur farið fram í fjárln. frá því við ræddum fjárlög ársins 2004 á fyrstu dögum þingsins í haust. Farið hefur verið yfir helstu forsendur fjárlagagerðarinnar, farið yfir stofnanir ríkisins. Viðtöl hafa verið tekin við fjölda manns sem erindi hafa átt við fjárlaganefnd og önnur þau mál sem tilheyra fjárlagagerðinni.

Hæstv. forseti. Síðustu ár hefur stefnumörkun stjórnvalda í efnahags- og ríkisfjármálum verið þannig að í vaxandi mæli er horft til lengri tíma en eins árs í senn. Það gefur færi á meiri yfirsýn yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum, rennir traustari stoðum undir hagstjórnina og styrkir trúverðugleika efnahagsstefnunnar og stuðlar að stöðugleika. Þessu hefur að nokkru verið fylgt eftir í fjárlagafrv. síðustu ára þar sem hefur mátt finna framreikning helstu stærða í samræmi við ákvæði gildandi fjárreiðulaga. Ríkisstjórnin hefur einnig stigið mikilvæg skref í átt til þess að styrkja slíka langtímastefnumörkun með því að samþykkja pólitísk markmið til ársins 2007. Þessi ákvörðun markar að vissu leyti tímamót hér á landi.

Undanfarin ár hafa orðið miklar framfarir í fjárlagagerð ríkisins sem hafa átt mikinn þátt í því að hér hefur tekist að skapa þá traustu umgjörð í ríkisfjármálum sem við búum við í dag. Hagstjórn undanfarinna ára hefur leitt til þess að kaupmáttur hefur vaxið meira en dæmi eru um síðustu áratugi. En forsendur stöðugleika eru hóflegar launahækkanir og lítil verðbólga. Stöðugleikinn er því grundvöllur þess að kaupmáttur vaxi enn frekar.

Hæstv. forseti. Á haustdögum tók ég ásamt öðrum þingmönnum á móti þingmönnum frá Kaliforníu. Það var mjög ánægjulegt að skiptast á skoðunum við þessa ágætu þingmenn, fulltrúa Kaliforníufylkis. Í máli þeirra kom fram hvað þau voru hrifin af íslenska hagkerfinu. Þau dáðust mjög að því hvernig svona fámenn þjóð getur haldið uppi miklu og skilvirku hagkerfi. Glöggt er gests augað, eins og þar stendur.

Hæstv. forseti. Lífskjör okkar hafa á undanförnum árum verið að batna svo um munar. Við yfirferð fjárln. hefur frv. tekið nokkrum breytingum og, virðulegi forseti, heilbrigðis- og tryggingamálin taka til sín mikinn hluta fjárlaganna eða um 40%. Verið er að auka þjónustu í heilbrigðiskerfinu, fjölga hjúkrunarrýmum fyrir aldraða samkvæmt samningi við eldri borgara. Í fjárlögum 2004 er verulegum fjárhæðum varið til uppbyggingar og reksturs öldrunarþjónustu. Dagvistarrýmum fyrir aldraða fjölgar töluvert og heimaþjónusta eflist til muna. Sú stefnubreyting er mjög farsæl sem er í því fólgin að fólk getur verið lengur á eigin vegum utan stofnana með hjálp bæði félagsþjónustu sveitarfélaga og heilsugæslunnar. Þannig er þjónustan samþætt. Það er öllum til hagsbóta og hefur það gefist mjög vel þar sem hún er til staðar. Ég vil nefna sérstaklega eitt sveitarfélag, Höfn á Hornafirði. Þar hefur þetta gefist ákaflega vel.

Framkvæmdasjóður aldraðra fær 23 millj. kr. í viðbót samkvæmt frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum, en þar er lagt til að gjaldið í sjóðinn verði hækkað um 2,5% eða 136 kr. á hvern gjaldanda, úr 5.440 kr. í 5.576 kr. Þessi hækkun er í samræmi við áætlaðar verðlagsbreytingar, en gert er ráð fyrir að byggingarvísitala hækki um 2,5% frá meðalverði ársins 2003 til meðalverðs ársins 2004. Stofnkostnaðarframlög til byggingar hjúkrunarheimila nær tvöfaldast á milli ára og verða rúmlega 900 millj. kr. árið 2004.

Þá er miklum fjármunum varið til að bæta þjónustu við geðsjúka á ýmsan hátt. Hér er um að ræða ný verkefni til að bregðast við skorti á úrræðum undanfarinna ára. Meðal þeirra er lokuð deild fyrir alvarlega geðsjúka en sakhæfa einstaklinga og efling barna- og unglingageðdeildar. Þá er verið að auka framlög til ýmissa félagasamtaka sem vinna mjög gott og uppbyggilegt starf í þágu geðsjúkra, starf sem er verið að vinna til að koma fólki annaðhvort í vinnu eða í nám, koma fólkinu út í samfélagið á ný. Allt skiptir þetta mjög miklu máli og er alveg sjálfsagt að styðja vel við bakið á þessum félagasamtökum.

Þá hefur verið bætt úr brýnni þörf á hvíldarþjónustu fyrir langveik börn og er það Rjóður. En til þess verkefnis eru lagðar 64 millj.

Söfnun var fyrir Sjónarhól fyrir nokkrum vikum. Það er miðstöð sem fólk getur leitað til að fá leiðbeiningar í kerfinu. Það er mjög mikilvægt hvernig þjóðin getur með samstilltu átaki gert góða hluti þegar mikið liggur við og þá stöndum við svo sannarlega öll saman. Ríkisstjórnin mun leggja til Sjónarhóls 45 millj. næstu þrjú ár.

Lagt er til að 100 millj. kr. fari í framkvæmd við Sjúkrahús Suðurlands á næsta ári. Þetta verkefni hefur því miður tafist, en það á ekki að hafa áhrif á að verkinu sem verja á 1.000 millj. til verði lokið á þeim tíma sem ætlað var. Hönnun á viðbyggingu við sjúkrahúsið lauk í júní sl. Verktakakostnaður er áætlaður um 800 millj. kr. Heildarframkvæmdakostnaður án búnaðar er tæpur milljarður, en með búnaði rúmur milljarður kr. Fjárveitingar núna eru samtals 179,6 millj. kr. Þar af koma 130 millj. kr. úr ríkissjóði og 43 milljónir frá Framkvæmdasjóði aldraðra. Stefnt er að því að framkvæmdir geti hafist strax á næsta ári og fyrri áfanga þeirra, uppsteypu, frágangi húsa að utan og lóðafrágangi ljúki á árinu 2006 en seinni áfangi, innrétting hússins, verði hafin í beinu framhaldi og honum lokið á árinu 2008.

Eins og mörgum er kunnugt er hér um að ræða byggingu hjúkrunardeildar í stað Ljósheima sem hefur verið dæmt óhæft húsnæði og er rekið með undanþágu yfirvalda brunamála og ferlimála fatlaðra. Því er mjög brýnt að þessari framkvæmd verði flýtt eins og kostur er. Ég tel líka mjög mikilvægt að framkvæmdaáætlun verði skipt þannig að hjúkrunardeild Ljósheima geti sem fyrst flutt inn í hið nýja húsnæði.

Hæstv. forseti. Formaður heilbr.- og trn., Jónína Bjartmarz, fór í dag yfir mikinn lyfjakostnað Landspítala og Tryggingastofnunar. Ég tek undir það að þetta er mikið áhyggjuefni. Þessi kostnaður hefur farið hækkandi ár frá ári og það verulega. Á fundi fulltrúa Landspítala og Tryggingastofnunar með heilbr.- og trn. núna um daginn kom fram að lyfjaverð hér á landi er í flestum tilvikum hærra en í nágrannalöndunum, en þessar stofnanir hafa forustu í að leita leiða til að lækka þennan kostnað. Í þessu skyni hafa þrjú lyfjaútboð farið fram á árinu og þrjú eru í undirbúningi hjá Landspítalanum. Á þessu ári verða samtals boðin út lyf fyrir 1 milljarð 574 millj. kr. eða 75% af heildarinnkaupum. Nefndinni var hins vegar greint frá því að tilboð bærust ekki í öll lyf sem boðin væru út og þá kæmi það einnig fyrir að tilboð hljóðuðu upp á hámarksheildsöluverð. Þess vegna skila útboðin næstum því alltaf þeim sparnaði sem að var stefnt.

Fulltrúar Tryggingastofnunar bentu á að lyfjamarkaðurinn hafi breyst afar mikið á síðustu árum. Þegar fyrirkomulagi hans var breytt var gert ráð fyrir 25% sparnaði í lyfjaútgjöldum. Ljóst væri hins vegar að sparnaðurinn er minni fyrir stofnunina því að almenningi er veittur afsláttur sem oft er umtalsverður en Tryggingastofnun þarf í öllum tilvikum að greiða fullt verð. Dæmi eru um að lyf kosti allt að 93% meira á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum. Nefnt var á fundi sem heilbr.- og trn. sótti hjá Tryggingastofnun um daginn að lyf sem framleitt er í Svíþjóð er 93% dýrara hér landi en þar og annað lyf 48% dýrara hér en annars staðar á Norðurlöndunum. Það er nærri helmings hærra verð hér. Í flestum tilvikum er hærra lyfjaverð hér en annars staðar.

[21:15]

Í staðtölum 2002 frá Tryggingastofnun koma fram afar athyglisverðar tölur. Meðal annars kemur þar fram að lyfjaútgjöld Tryggingastofnunar eru um þriðjungur af útgjöldum sjúkratrygginga eða rúmlega 5,4 milljarðar á árinu 2002. Þá höfðu lyfjaútgjöld hækkað um 12,5% frá fyrra ári. Þetta er mjög athyglisvert hvað lyfjaneysla er miklu meiri hér en annars staðar en það má geta þess að við erum miklu yngri þjóð en þær þjóðir sem verið er að bera sig saman við.

Hæstv. forseti. Ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess samkomulags, eins og hefur verið rætt hér í dag, ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalags Íslands sem gert var á vordögum þar sem gert var ráð fyrir að grunnlífeyrir öryrkja muni hækka frá 1. jan. 2004. Með því samkomulagi er verið að koma sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar á unga aldri þannig að fjárhæð lífeyrisins mun fara stighækkandi eftir því sem menn eru yngri þegar þeir verða öryrkjar, en gert er ráð fyrir allt að tvöfaldri hækkun grunnlífeyris til þeirra sem yngstir verða öryrkjar, upphæð allt að einum milljarði. Hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson gerði grein fyrir því að standa ætti við þessi orð og eigum við von á því að fá fram frumvörp til lagabreytinga því að það þarf að kerfisbreyta vegna þessa gjörnings.

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins geta þess sem verið er að gera í félmrn. til að stytta biðlista eftir þjónustu við fatlaða og eru hér nokkrar tillögur. Gert er ráð fyrir fjármagni til tveggja nýrra sambýla í Reykjavík, frá miðju ári. Gert er ráð fyrir fjármagni til tveggja nýrra sambýla á Reykjanesi, frá miðju ári og einnig er gert ráð fyrir opnun nýs sambýlis á Suðurlandi, frá miðju ári. Áætlað er fyrir heilsársrekstri nýrrar hæfingarstöðvar á Reykjanesi. Efla á skammtímaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og efla á dagvistun á Suðurlandi.

Hæstv. forseti. Heildartekjur ríkissjóðs voru áætlaðar í frv. 279,4 milljarðar kr. Nú hefur þessi áætlun verið endurskoðuð og er nú talið að tekjur ríkissjóðs verði árið 2004 282 milljarðar kr. sem er hækkun um 2,6 milljarða kr. miðað við upphaflega áætlun í fjárlagafrv. 2004. Þessa hækkun má fyrst og fremst rekja til tveggja þátta, annars vegar er áætlað að tekjur af sköttum á vörum og þjónustu verði 1,9 milljörðum kr. meiri en gert var ráð fyrir og hins vegar að áætlaðar tekjur af eignarsköttum aukist um 450 millj. kr. Þær hækkanir má rekja til endurmats á tekjum ríkisins á þessum sköttum á árinu 2003.

Spár um þjóðhagsforsendur eru óbreyttar en spáð er að hagvöxtur verði um 3,5% á árinu 2004 og verðbólga um 2,5%. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann muni aukast um allt að 2,5% og þá er spáð minnkandi atvinnuleysi eða að það verði um 2,5%.