2003-11-26 02:03:22# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[26:03]

Bjarni Benediktsson:

Virðulegi forseti. Fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir þinginu leggur grunninn að áframhaldandi velsæld Íslendinga. Í þessu frv. kemur fram að stefnt er að verulegu aðhaldi í ríkisfjármálunum. Markvisst er unnið að því að takmarka vöxt samneyslunnar, afgangur af ríkissjóði er tryggður fyrir árið 2004 í frv. og gert er ráð fyrir því að hann muni aukast enn frekar sem hlutfall af landsframleiðslu á árinu 2005.

Við 1. umr. um fjárlagafrv. ársins 2004 lá fyrir þinginu frv. sem hljóðaði upp á 6,4 milljarða í tekjuafgang. En í meðförum þingsins hafa bæði tekju- og gjaldaliðir frv. tekið breytingum eins og venja er og menn hafa verið að takast aðeins á um þær breytingar í þingsal í dag. En tekjuafgangur samkvæmt frv. eins og það lítur nú út eykst frá því sem var við 1. umr.

Í brtt. meiri hluta fjárln. er gert ráð fyrir tæplega 6,8 milljarða afgangi. Því hækkar tekjuafgangurinn um tæpar 400 millj. frá því sem var við 1. umr. Þetta tryggir það mikilvæga markmið að afgangur af ríkissjóði verður a.m.k. 0,75% af landsframleiðslu eins og upphaflega var stefnt að. Þetta er mjög mikilvægt markmið og ber að hafa í huga þegar menn fjalla um þau auknu útgjöld sem gerðar eru tillögur um í breytingum við fjárlagafrv. sem hér er verið að ræða.

Ég vil nú í upphafi máls mína jafnframt nota þetta tækifæri til þess að taka undir með hv. þingmönnum sem hafa hér í dag lýst ánægju sinni með þá breytingu sem er að verða í þinginu með því að við ræðum hér tekjuáætlun við 2. umr. um fjárlög. Þetta er að gerast í fyrsta skipti. Þrátt fyrir að ég hafi sjálfur ekki áður tekið þátt í umræðu um fjárlög verð ég að segja að þetta er mikið framfaraskref. Það skiptir mjög miklu máli fyrir málefnalega umræðu um fjárlagafrv. að þessu sé hagað svona.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að umræðan sem hér hefur átt sér stað um fjármál ríkisins og fjárlagafrv. nú við 2. umr. er fyrir margra hluta sakir merkileg. Við Íslendingar stöndum nú við upphaf nýs hagvaxtarskeiðs. Allir sem hafa tjáð sig um ríkisfjármálin og horfur í efnahagsmálum hafa sagt og lagt á það áherslu að hagstjórn á komandi árum sé gríðarlega krefjandi verkefni, krefjandi verkefni en alls ekki óviðráðanlegt því við getum, ef rétt er á spilunum haldið, notið ávaxtanna af því hagvaxtarskeiði sem fram undan er. En það er þá háð því að okkur takist að halda ríkisfjármálunum í jafnvægi og okkur takist að tryggja stöðugleikann áfram. Um þetta hafa flestir flokkar verið algjörlega sammála og allir sem hafa komið skoðun sinni á framfæri um efnahagsmál til framtíðar taka undir þetta í þessari umræðu.

Menn eru jafnframt sammála um að árangur okkar á undanförnum árum felst ekki síst í því að halda verðbólgunni í skefjum því það hefur verið lykillinn að bættum kjörum landsmanna. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið, aukist. Hann hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Síðast í dag bárust fréttir af því að kaupmáttur hefði verið mældur. Kjararannsóknarnefnd fylgist með reglulegum launum. Regluleg laun sem kjararannsóknarnefnd fylgist með hafa hækkað að meðaltali um 5,4% milli þriðja ársfjórðungs 2002 og þriðja ársfjórðungs á þessu ári. Þannig hefur kaupmáttur vaxið um 3,3% að meðaltali. Góðu fréttirnar eru þær að samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum, þjóðhagsáætlun fyrir árið 2004 sem felur í sér langtímaspá, mun þessi þróun halda áfram. Kaupmáttur ráðstöfunartekna mun halda áfram að aukast.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir það sem ég hef nú rakið, þrátt fyrir það að allir flokkar séu sammála um að í ríkisfjármálum séu krefjandi verkefni fram undan þá koma þingmenn hér upp hver á fætur öðrum án þess að víkja að nokkru marki að því hvernig útlitið er í ríkisfjármálunum, í efnahagsmálum þjóðarinnar, hvernig þeim lítist á blikuna varðandi þennan grundvallarþátt fjárlagafrv. Auðvitað hljóta þetta að teljast tíðindi við umræðu um fjárlög. Þetta eru tíðindi því þessi umræða verður ekki skilin á annan veg en að þingheimur lýsi trausti á það hvernig ríkisstjórnin teflir hér fram hugmyndum sínum um hagstjórnina inn í framtíðina. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni og ekkert undrunarefni vegna þess að hér er verið að byggja á traustum grunni með sömu megináherslur að leiðarljósi og hafa skilað okkur þangað sem við erum í dag.

Ekki verður önnur ályktun dregin af umræðunni hér í dag en að menn séu almennt sammála á grundvelli þeirra áherslna sem koma fram í hagstjórnarlegu tilliti í fjárlagafrv. að okkur muni farnast vel á komandi árum.

Í stað þess að ræða þessar breiðu línur, horfurnar í efnahagsmálum, þá hafa hv. þm. komið hér í dag og rætt um einstaka málaflokka, áherslur í einstökum málaflokkum --- það er í sjálfu sér skiljanlegt --- í stað þess að ræða um atvinnustig, gengismál, vaxtastig, verðbólgu, kaupmátt og hagvöxt. Umræðan hefur ekki snúist um þessi atriði heldur hefur hún í öllum aðalatriðum snúist um skiptingu tillagna fjárln. yfir á kjördæmi, vinnubrögð nefndarinnar, sjónarmið, um áherslur á einstaka málaflokka, eins og ég vék að áðan, og samskipti þingsins við framkvæmdarvaldið. Allt eru þetta auðvitað tilefni til umræðu hér við 2. umr. eða við umræðu um fjárlagafrv. almennt. En áherslurnar á þessi mál í samanburði við áherslurnar á efnahagsmálin í víðara samhengi hljóta að vekja athygli mína sérstaklega. Þessi umræða er vissulega nauðsynleg. Hún hefur varpað ljósi á atriði sem nauðsyn bar til að yrðu rædd við þessa umræðu fjárlagafrv.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að vera með langt mál um þau atriði sem menn hafa verið að takast á um í síðustu ræðum. Menn hafa komið inn á velferðarmálin. Ég segi bara að það þarf nú ekki annað en að opna þjóðhagsáætlun fyrir árið 2002 og skoða velferðarmálakaflann. Menn skoða hér spár um breytingar á kaupmætti ráðstöfunartekna á mann. Menn skoða spár um atvinnuleysi sem hlutfall af mannafla. Menn skoða framlög, útgjöld til heilbrigðismála og svo fram eftir götunum. Það er augljóst af öllum þessum samanburði, af öllum þessum súluritum sem hér er að finna, að við erum að gera vel við velferðarkerfið, við höfum verið að gera vel og við ætlum að gera enn betur. Íslendingum mun farnast vel á grundvelli fjárlagafrv. og þeirra langtímaáætlana sem ríkisstjórnin er að kynna með fjárlagafrv. fyrir árið 2004.