Fjárlög 2004

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 14:14:41 (2152)

2003-11-26 14:14:41# 130. lþ. 34.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÞBack (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er gerð tillaga um að hækka sjúkratryggingar í þremur liðum. Það eru þrír nýir liðir, þ.e. varðandi greiðsluþátttöku vegna sálfræðiþjónustu, greiðsluþátttöku vegna tannverndar barna og unglinga og þátttöku í ferðakostnaði vegna tannréttinga. Allt eru þetta brýn verkefni sem kallað hefur verið eftir leiðréttingu á.

Varðandi sálfræðiþjónustuna þá hafa sálfræðingar ekki samning við Tryggingastofnun ríkisins og þar af leiðandi fá einstaklingar sem til þeirra leita ekki niðurgreiðslu eins og t.d. þeir sem leita til geðlækna. Nú er svo komið að fjárhagur ræður orðið vali á því til hvaða sérfræðinga fólk leitar í þessum tilfellum.

Varðandi tannvernd barna og unglinga þurfum við að gera sérstakt átak til að koma betra lagi á tannlæknaþjónustu barna og unglinga, hún hefur dregist aftur úr.

Ferðakostnaður vegna tannréttinga er réttlætismál. Þetta óréttlæti kemur aðallega niður á börnum og unglingum á Austurlandi þar sem tannréttingasérfræðingar hafa ekki verið starfandi um nokkra hríð.