Fjárlög 2004

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 14:53:09 (2163)

2003-11-26 14:53:09# 130. lþ. 34.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að fasteignin við Grensásveg 12 verði seld þegar nýtt húsnæði er komið til sögunnar í Náttúrufræðihúsi fyrir þá starfsemi sem það hýsti. En það er með öllu óskiljanlegt að Háskóli Íslands skuli ekki eiga að njóta söluandvirðis hinnar eldri eignar að fullu. Ekki veitir af, hvort heldur væri til áframhaldandi uppbyggingar við háskólann, tækjakaupa eða t.d. til að þoka af stað áformum um að byggja sýningarsal við Náttúrufræðihúsið í Vatnsmýrinni.

Engin rök standa til þess að undanskilja hluta söluandvirðisins. Háskóli Íslands hefur bundið sér miklar byrðar með því að gera samning um að ljúka Náttúrufræðihúsinu og mun stór hluti tekna Happdrættis Háskóla Íslands á næstu árum fara til að greiða afborganir af lánum í stað þess að geta staðið undir nýjum byggingum.

Þá er rétt að geta þess að með því að afgreiða málið með þessum hætti er fjárlagavaldið í raun framselt í hendur framkvæmdarvaldsins. Það verður þá í þeirra höndum að ákveða hver skiptingin verður. Afgreiðslan er á allan hátt óeðlileg og eðlilegast að fella burtu orðið ,,hluta`` þannig að háskólinn fái söluandvirðið að fullu.