Uppsagnir hjá varnarliðinu

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 10:46:13 (2277)

2003-11-28 10:46:13# 130. lþ. 38.94 fundur 198#B uppsagnir hjá varnarliðinu# (umræður utan dagskrár), SP
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[10:46]

Sólveig Pétursdóttir:

Hæstv. forseti. Allt frá því að bandarísk stjórnvöld tilkynntu íslenskum stjórnvöldum um þá fyrirætlun sína að draga herlið sitt til baka frá Íslandi sl. vor hefur utanrmn. fylgst grannt með gangi mála eins og lög gera ráð fyrir enda var um meiri háttar utanríkismál að ræða. Nefndin hefur rætt málið ítarlega og veitt ríkisstjórninni þann pólitíska stuðning sem hún hefur þurft við framgang málsins.

Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna og vinsamleg samskipti Íslands og Bandaríkjanna eru og hafa verið einn af hornsteinum íslenskrar utanríkismálastefnu.

Hæstv. forseti. Málshefjandi ýjar að því að uppsagnir varnarliðsins tengist hugmyndum bandarískra stjórnvalda um breytingu á varnarsamstarfinu. Við þurfum að hafa það alveg á hreinu að öryggis- og varnarmál Íslands og samningur okkar við Bandaríkin eru alveg óskyld atvinnumálum á Íslandi. Við megum alls ekki blanda þessum óskyldu hlutum saman. Að sjálfsögðu verður að viðurkennast að varnarliðið er stór atvinnurekandi á Suðurnesjum og hefur verið það um áratuga skeið. Það þarf þó ekki að koma á óvart að varnarliðið þurfi eins og aðrir að bregðast við breyttum aðstæðum og niðurskurði í fjárveitingum. Það gildir hið sama um Suðurnes og önnur svæði á landinu að ef stór atvinnurekandi dregur saman seglin hefur það töluverð áhrif á efnahagslífið á svæðinu og við því verðum við að bregðast á hverjum tíma með jákvæðum aðgerðum.

Hæstv. utanrrh. lýsti því hér áðan að uppi væru áform í þessa veru og að miklir möguleikar væru í stöðunni. Aðalatriðið er þó að á meðan niðurskurður á fjárveitingum til varnarliðsins raskar ekki öryggishagsmunum Íslands og þeim lágmarkskröfum sem íslensk stjórnvöld gera til landvarna á grundvelli gildandi varnarsamnings geta stjórnvöld því miður ekki mikið aðhafst. Á hinn bóginn eru áhyggjur manna af atvinnumálum á Suðurnesjum mjög skiljanlegar og því full ástæða til þess að fylgjast með þróun mála á þessu svæði og bregðast við eins og áður sagði með jákvæðum aðgerðum.