Uppsagnir hjá varnarliðinu

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 10:55:08 (2281)

2003-11-28 10:55:08# 130. lþ. 38.94 fundur 198#B uppsagnir hjá varnarliðinu# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. ,,Maddamamma, Maddamamma, þú verður að horfast í augu við raunveruleikann,`` sagði nornin við Möddumömmu í ævintýrinu um Skilaboðaskjóðuna. Það sama hafa herstöðvaandstæðingar sagt við íslensk stjórnvöld um árabil. Allir herstöðvaandstæðingar hafa sagt að hér þurfi að horfast í augu við raunveruleikann og það sé og hafi verið fásinna af íslenskum stjórnvöldum að byggja atvinnustarfsemi á Suðurnesjum í svo ríkum mæli sem raun ber vitni á þessum erlenda her sem hefur setið án tilefnis í landinu allt of lengi.

Herstöðvaandstæðingar hafa ævinlega hvatt stjórnvöld til að efla atvinnulíf á Suðurnesjum, leyfa því að þroskast og dafna á sínum eigin forsendum á sinn einstaka hátt. En það hefur bara ekkert verið gert með það.

Virðulegur forseti. Nú standa íslensk stjórnvöld frammi fyrir eigin afglöpum í þessu máli. Herinn er á heimleið og þau eru hálflúpuleg, vægast sagt. Ég tel að við eigum að líta á þetta sem frjótt tækifæri til þess að skapa nú nýtt og gefandi atvinnulíf á Suðurnesjum og hefjast handa strax. Í því sambandi fagna ég þeirri yfirlýsingu sem hæstv. utanrrh. gaf áðan um að það eigi að fara í athugun á atvinnumálum ungs fólks og það skuli eiga að byrja á Suðurnesjum. Það er auðvitað í hugmyndum og krafti unga fólksins á svæðinu sem tækifærin liggja og þar eigum við að leita og þess vegna fagna ég sérstaklega þessari yfirlýsingu hæstv. utanrrh.

Jafnframt vil ég ítreka þá ósk sem kom fram í máli hv. formanns Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að það verður að hafa samráð við fólkið og það verður að hafa þann samráðsvettvang opinn og formlegan og það þarf að koma honum á eigi síðar en strax.